Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, var tekjuhæst af forsetaframbjóðendunum með 2.815.586 krónur á mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í álagningarskrám Ríkisskattstjóra, sem opnaðar voru í morgun. Katrín hafnaði í öðru sæti í kosningunum.
Hafa ber í huga að Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, hafði tekjur erlendis frá í fyrra og greiddi því ekki tekjuskatt hér á landi. Það breytist í ár því að laun forseta Íslands eru 3.957.185 krónur.
Einn annar forsetaframbjóðandi, Ástþór Magnússon Wiium, greiddi ekki tekjuskatt hér á landi og kemur því ekki fram í álagningarskrám.
Næst launahæsti forsetaframbjóðandinn var Baldur Þórhallsson háskólaprófessor með 1.453.139 krónur en hann hafnaði í fimmta sæti í kosningunum.
Ekki langt á eftir koma tveir forstjórar ríkisstofnana. Það er Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, með 1.369.026 krónur og Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, með 1.329.607 krónur. Sú síðarnefnda hafnaði í þriðja sæti í kosningunum.
Einn annar forsetaframbjóðandi var með meira en eina milljón í mánaðarlaun. Það var Eiríkur Ingi Jóhannsson, sjómaður, sem var með 1.038.436 krónur.
Næst á lista yfir tekjuhæstu forsetaframbjóðendurna kemur leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Hún var með 996.641 krónu í mánaðartekjur í fyrra.
Nokkuð mikið bil er yfir í þann næsta, lögmanninn Arnar Þór Jónsson, sem var með 609.249 krónur.
Einnig er nokkuð mikið bil yfir í næsta frambjóðanda. Fyrirsætuna Ásdísi Rán Gunnarsdóttur sem hafði 325.392 krónur í mánaðartekjur í fyrra. Litlu meira en Viktor Traustason sem var með 302.943 krónur.
Neðstur á listanum er leikarinn og rithöfundurinn Jón Gnarr. Hann var með 145.372 króna mánaðartekjur í fyrra.