fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Einkaviðtal við sakborning í stóra fíkniefnamálinu – „Ég veit ekki hver hirðir alla peningana en það erum ekki við“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 17. ágúst 2024 09:00

Fíkniefni sem fundust við eina af mörgum húsleitum sem lögregla gerði. Mynd úr rannsóknarskýrslu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér fannst þeir vera að reyna að ná allt of miklu, þeir voru að fara á eftir fólki sem kom þetta ekkert við og það lentu nokkrar saklausar manneskjur í húsleitum. Mér fannst þeir fara offari því í rauninni var þessi hópur alveg stopp í september en samt héldu þeir áfram eins og þetta væri mafía Íslands. Þeir eru að fylgjast með öllu í sjö mánuði og það eina sem þeir hafa upp úr því er rúmlega tveggja kílóa innflutningur. Það er álíka mikið og rennur í gegn í hverri viku,“ segir einn ákærðu í stóra fíkniefnamálinu, maður á fimmtugsaldri.

DV hefur fjallað mikið um málið að undanförnu en það er óvenjulegt að því leyti að sakborningar eru 18 talsins, mikill meirihluti þeirra er það sem almennt er kallað venjulegt fólk sem lifir hefðbundnu lífi. Helmingurinn af hópnum er meðal annars ákærður fyrir skipulagða brotastarfsemi, þar á meðal viðmælandi DV. Hann segist saklaus af ákæru um skipulagða brotastarfsemi og telur engar líkur á að hann verði sakfelldur fyrir það enda séu engar sannanir fyrir því.

Sjá einnig: Þetta eru höfuðpaurarnir í stóra fíkniefnamálinu – Peningabúntin voru afhent og sótt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku

Samkvæmt heimildum DV hefur hópurinn starfað í nokkur ár en lögreglan komst á sporið seint í september 2023 er hún fékk ábendingu um að kona ein stæði í sölu á talsverðu magni af amfetamíni. Umrædd kona er ein af sakborningum í málinu. Við rannsókn á gögnum í farsíma konunnar komst lögreglan á snoðir um starfsemi hópsins auk þess sem þessi gögn leiddu hana að mörgum geymslustöðum fíkniefna.

Í kjölfarið voru framkvæmdar fjölmargar húsleitir þar sem fundust ýmiskonar fíkniefni, samtals um fjögur kíló.

Hinn meginás málsins varðar smygl á tæplega 2,2 kílóum af kókaíni með skemmtiferðaskipinu Aidasol í apríl síðastliðnum, en efnin voru falin í pottum sem einn sakborninganna hafði meðferðis.

Sjá einnig: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi

Fjórir af sakborningunum 18 eru ákærðir fyrir að hafa staðið að þessu smygli en lögregla hafði veður af ráðagerðinni með skoðun á farsímagögnum. Draga má hins vegar í efa að málið tengist 18 manna hópnum sem slíkum, en viðmælandi DV segir svo ekki vera. Málið sé óviðkomandi hópnum sem slíkum sem hafi auk þess vart verið starfandi þegar lagt var á ráðin um smyglferðina.

Segir málið blásið upp: „Þetta áttu að vera einhver risaglæpasamtök“

Viðmælandi DV segir lögreglu hafa blásið málið upp og bendir á að það magn fíkniefna sem fundist hafi rími ekki við mjög stórt mál. „Þetta áttu að vera einhver risaglæpasamtök. Lögreglan fylgist með bókstaflega öllu í sjö mánuði og það eina sem þeir hafa upp úr því eru þessi rúm tvö kíló. Þú sérð að þetta er ekki einhver stórtækur hópur.“

Maðurinn staðhæfir að hópurinn hafi nánast ekki verið starfandi eftir rassíur lögreglunnar í lok september í fyrra. Sjálfur sé hann að ósekju sagður vera einn þriggja höfuðpaura í skýrslum lögreglu um málið en sannleikurinn sé sá að hann hafi í raun ekki komið til liðs við hópinn fyrr en hann var að liðast sundur. „Sjálfur er ég nánast hálf skýrslan þarna af því að á þessum tíma var ég nánast eini maðurinn þarna sem var eitthvað að braska í þessu, aðrir voru einfaldlega hættir. Þess vegna kem ég svo illa út.“

Hann segist ekki vera saklaus, en hins vegar ekki sekur um það sem hann er ákærður fyrir, ekki nema hluta þess. „Ég verð ekki sýknaður en ég neita því alfarið að hafa komið nálægt skipulagðri brotastarfsemi.“

DV spyr hvað hann telji sig eiga eftir að fá þungan dóm:

„Ég hef ekki pælt í því hvað ég fæ langan fangelsisdóm en þetta verður aldrei þungur dómur, ég kom ekki nálægt neinum geymslum á fíkniefnum, þeir eru ekki búnir að reyna að finna neinar geymslur sem ég á að eiga, löbbuðu um allt hverfið með fíkniefnahunda, þeir fóru með sérsveitina til vina og vandamanna, en þeir fundu ekki neitt. Ég kom ekki nálægt þessum innflutningi, ég var ekki með ofbeldi og engin vopn.“

Maðurinn segist þó sekur um að hafa haft fíkniefni undir höndum. Hann segir jafnframt að lögregla hafi fundið í fórum hans ríflega 2,5 milljónir króna í reiðufé en segist geta gert grein fyrir þeim fjármunum.

Hóf fíkniefnasölu vegna heilsuleysis

Eins og kannski flestir gera sér grein fyrir því er fólk sem leiðist út í afbrot jafn misjafnt og það er margt. Áður en blaðamaður hitti viðmælanda sinn augliti til auglitis hafði hann ekki reynt að gera sér sérstaka mynd af honum. En það sem kemur á óvart þegar sest er niður með þessu manni er að ekkert við hann vekur hughrif um að hér sé afbrotamaður á ferðinni. Hann lítur engan veginn út fyrir að vera í neyslu, enda er hann það ekki. Hann er kurteis og rólegur í viðmóti, honum liggur lágt rómur, útlit, klæðnaður og yfirbragð eru með þeim hætti að ef giska ætti á starfsgrein mannsins myndi blaðamaður skjóta á að hann væri forritari.

Maðurinn viðurkennir að fíkniefnasala hans nái allmörg ár aftur í tímann en hann er hættur henni með öllu í dag, stundar venjuleg og lögleg störf eingöngu núna, rekur lítið fyrirtæki. Hann segir að heilsubrestur hafi verið undanfari og orsök þess að hann tók þá ákvörðun að byrja að selja fíkniefni.

„Ég veiktist illa, missti vinnuna og vildi ekki fara á örorkubætur. Ég komst í þetta í gegnum vinahóp sem ég átti frá því um aldamótin. Þetta byrjaði smátt, ég var að redda vinum og kunningjum efnum en svo vatt þetta upp á sig. Ég lagði upp úr því að vera almennilegur og beita aldrei ofbeldi. Þegar þú ert almennilegur í umgengni og ert ekki með ofbeldi þá leitar fólk til þín. Það er svo mikið af fávitum í þessum bransa þannig að ef þú ert almennilegur og kemur vel fram þá vill fólk leita til þín. Þannig vatt þetta hratt upp á sig.“

DV spyr hvort margumræddur 18 manna hópur hafi verið ofbeldislaus. „Hann var nær ofbeldislaus, þetta er fólk sem beitir ekki ofbeldi nema til að verja heimili sín. Þetta fólk og fleiri er ekki með stæla og þarna eru engir að misnota konur eins og er algengt í þessum heimi.“

Hefur ekki reynst arðbært

Maðurinn segist aldrei hafa efnast á fíkniefnasölu og aldrei lifað hátt. Í 18 manna hópnum séu allir skítblankir í dag. „Þetta er ekki svona ofurarðbært eins og fólk hugsar sér. Ég veit ekki  hver hirðir alla peningana en það erum ekki við. Þetta var bara vinna sem ég gat unnið, ég lifði af þessu, ekkert umfram það. Það er mikil velta í þessu en ekki gróði. Maður er ekki að rúlla upp einhverjum milljónum eins og fólk heldur.“

Maðurinn segist hafa réttlætt brotin fyrir sjálfum sér en hann viti að þetta sé rangt. „Maður er að réttlæta þetta fyrir sjálfum sér, hugsar með sér að ef ekki ég þá sjái bara einhverir vitleysingar um þetta. En þetta er oftast veikt fólk sem er að koma til þín, svo auðvitað er þetta rangt. En ég lagði samt mikið upp úr því að vera ekki fáviti, vera ekki í neyslu, koma vel fram og beita ekki ofbeldi.“

Sem fyrr segir stundar maðurinn eingöngu heiðarlega vinnu í dag. Hann sér ekki fyrir sér að hann muni selja fíkniefni framar. Hann segist taka því sem að höndum ber þegar dómur verður kveðinn upp yfir honum. „Ég tek bara afleiðingunum af þessu, það þýðir ekkert að væla yfir því.“

Hann segist vera búinn að búa ýmsa sem standa honum næst undir það sem mun gerast. „Ég er búinn að segja vinnufélögum mínum þetta og nánusu ættingjum. Þetta mun ekki koma þeim á óvart. Ég held svo bara áfram með líf mitt og reyni að láta það ganga vel.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“