fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Fréttir

Sektað fyrir duldar auglýsingar á nikótínvörum á FM957

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 15. ágúst 2024 11:30

Höfuðstöðvar Sýnar sem á og rekur FM957

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlanefnd hefur sektað fjölmiðlafyrirtækið Sýn fyrir duldar auglýsingar á nikótínvörum á útvarpsstöðinni FM957, sem er í eigu fyrirtækisins, en þær voru birtar á tímabilinu janúar 2023 til maí 2024. Fyrirtækið mótmælti því harðlega að það hefði gerst sekt um brot á lögum um fjölmiðla með auglýsingunum en Fjölmiðlanefnd varð ekki haggað.

Í ákvörðun nefndarinnar segir að í febrúar á þessu ári hafi nefndinni borist ábending frá Neytendastofu þar sem athygli var vakin á því að á FM957 hefðu birst auglýsingar frá fyrirtækinu Dufland fyrir LOOP nikótínpúða. Að mati þess sem sendi inn ábendinguna til Neytendastofu sem áframsendi hana til Fjölmiðlanefndar var um að ræða auglýsingar fyrir nikótínvörur „undir því yfirskyni“ að um væri að ræða fatnað sem hægt væri að kaupa á vefsíðunni Loopmerch.is. Á vefsíðunni kæmi fram að hún væri í eigu fyrirtækisins Duflands. Þar væri að finna ýmsan fatnað og aukahluti merktan vörumerki LOOP og bragðtegundum nikótínpúða. Samkvæmt innsendanda ábendingarinnar væru allar vörur á vefsíðunni „uppseldar“ og því greinilegt að hans mati að tilgangur hennar væri einungis sá að komast hjá lögum sem banna auglýsingar fyrir nikótínvörur.

Í ákvörðuninni er málsmeðferð Fjölmiðlanefndar rakin all ítarlega. Við athugun nenfdarinnar kom m.a. í ljós að umræddar auglýsingar birtust í einum vinsælasta þætti FM957 og raunar einum vinsælasta útvarpsþætti landsins, FM95BLÖ. Sýn gerði upphaflega athugasemd við að málið væri til meðferðar hjá Fjölmiðlanefnd og taldi það eiga heima hjá Neytendastofu, þangað sem ábendingin um auglýsingarnar hafði upphaflega borist, þar sem það snérist í raun um meinta ólögmæta viðskiptahætti Duflands og að síðarnefnda stofnunin eigi að hafa eftirlit með banni við auglýsingum á nikótínvörum. Fjölmiðlanefnd vísaði hins vegar í samstarfssamning við Neytendastofu og sagði hann kveða á um að nefndin taki fyrir slík mál sem beinist að fjölmiðlum.

Geti ekki kannað lagerstöðu

Sýn andmælti því að um væri að ræða duldar auglýsingar á nikótínvörum. Auglýsingarnar vörðuðu fatnað og fullyrðingar um að hann væri ekki í raun til sölu eða uppseldur væri ekki á ábyrgð Sýnar enda gæti fyrirtækið ekki staðið í því að kanna ávallt lagerstöðu einstakra auglýsenda. Sagði Sýn það hlutverk Neytendastofu og lögreglu að grípa til aðgerða gegn Duflandi ef fyrirtækið viðhefði ólögmæta viðskiptahætti. Sýn hefði birt auglýsingarnar í góðri trú en tekið þær úr birtingu þegar Fjölmiðlanefnd sendi erindi sitt.

Í ákvörðuninni er heildartexti allra auglýsinganna birtur. Þær voru fyrst sagðar alls fjórar en reyndust vera alls ellefu Ein þeirra hljóðaði svo:

„LOOP Mint Mania er nú LOOP Smooth Mint. Loopmerch.is.“

Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu í frummati sínu að þessi auglýsing og hinar tíu væru ekki auglýsingar fyrir vefsíðuna Loopmerch.is sem seldi aðeins fatnað og aukahluti heldur væri þarna verið að auglýsa nikótínvörur. Sagði nefndin í matinu að með birtingu auglýsinganna hefði Sýn brotið lög um fjölmiðla sem banni auglýsingar fyrir nikótínvörur.

Sýn tók ekki undir þetta mat Fjölmiðlanefndar og ítrekaði fyrri andsvör um að þarna hefði verið um að ræða auglýsingar  fyrir fataverslunina Loopmerch.is. Seljandinn, Dufland, bæri alla ábyrgð á því að fatnaðurinn væri ekki til. Vildi fyrirtækið meina að Fjölmiðlanefnd hefði ekki sannað að auglýsingarnar væru í raun duldar auglýsingar á nikótínvörum. Fyrirtækið sendi Fjölmiðlanefnd skjáskot af Instagram-síðum áhrifavalda, sem klæddir voru í föt merkt Loop, til að sanna að í umræddri vefverslun væri sannarlega seldur fatnaður. Sýn vísaði sem fyrr allri ábyrgð á hendur seljanda Loop-vara, Duflandi. Vildi Sýn einnig meina að ekki væri skýr heimild í lögum til að takmarka rétt fyrirtækisins í málinu.

Bragðtegundir

Þessi röksemdafærsla Sýnar breytti engu fyrir Fjölmiðlanefnd. Nefndin segir í endanlegri niðurstöðu sinni að auglýsingarnar hafi snúist um að auglýsa nikótínvörur en ekki fatnað og birting þeirra brjóti þar með í bága við lög um fjölmiðla. Vísaði nefndin meðal annars til þess að í þremur auglýsingum væri nefndar bragðtegundir af Loop nikótínpúðum. Nefndin tók ekki undir að auglýsingar fyrir vefverslunina Loopmerch.is snérust eingöngu um fatnað þar sem Loop væri þekkt nikótínpúðavörumerki. Telur nefndin að Dufland hafi í raun sett netverslunina á fót til að selja kynningarvörur fyrir nikótínpúða og að það hafi Sýn átt að vita og að auglýsingarnar brytu þar með í bága við lög um fjölmiðla.

Nefndin féllst heldur ekki á þau sjónarmið Sýnar að lögin banni ekki auglýsingar á vörumerkjum sem séu svipuð nikótínvörum. Telur nefndin það augljóst að lögin leggi bann við að auglýsa vörumerki sem innihald nafn á slíkum vörum. Þar með séu auglýsingar á Loop-fatnaði í raun auglýsing á nikótínvörum þessa sama vörumerkis.

Fjölmiðlanefnd komst því að þeirri niðurstöðu að með umræddum auglýsingum hefði Sýn brotið lög um fjölmiðla sem banni bæði beinar og óbeinar auglýsingar á nikótínvörum. Nefndin féllst heldur ekki á þá lögskýringu Sýnar að lög um fjölmiðla fælu ekki í sér nægilega skýra lagaheimild til að banna auglýsingar á nikótínvörum. Sömuleiðis var ekki fallist á þær fullyrðingar Sýnar að takmarkanir á auglýsingum fælu í sér brot gegn stjórnarskrá Íslands og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Sýn var því sektað um eina og hálfa milljón króna.

Ákvörðun Fjölmiðlanefndar í heild sinni er hægt að lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Í gær

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Í gær

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur