Dómari í grænlensku borginni Nuuk hefur úrskurðað að Paul Watson verði áfram í gæsluvarðhaldi. Dönsk yfirvöld eiga eftir að taka ákvörðun um framsal hans til Japan.
Fréttastofan Reuters greinir frá þessu.
Eins og DV og fleiri miðlar hafa grein frá var Watson handtekinn í lok júlí og úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald. Var það á grundvelli alþjóðlegrar handtökuskipunar sem japönsk stjórnvöld fóru fram á vegna meintrar árásar hans á hvalveiðiskip í Suður Kyrrahafi árið 2010.
Japönsk stjórnvöld hafa farið fram á framsal Watson, þar sem hann getur átt yfir höfði sér allt að fimmtán ára fangelsisdóm. Þrýst hefur verið á dönsk stjórnvöld að sleppa Watson. Meðal annars hefur Emmanuel Macron Frakklandsforseti beitt sér í þágu hans, en Watson er búsettur í Frakklandi.
Nú hefur dómari í Nuuk úrskurðað að Watson skuli vera í gæsluvarðhaldi í þrjár vikur til viðbótar þar sem dönsk stjórnvöld hafa ekki tekið ákvörðun um framsal. Að óbreyttu má hann því dúsa í klefa sínum í Nuuk til 5. september næstkomandi. Watson hefur þó þegar áfrýjað ákvörðuninni.