Sprengju var varpað á heimili fjölskyldunnar í Der al Balah með þeim afleiðingum að Asser og Ayssel létust bæði. Ekki nóg með það heldur lést móðir þeirra og amma einnig í árásinni.
BBC og Sky News greina meðal annars frá þessu og í frétt Sky News má sjá myndband af örvingluðum föðurnum eftir að hann fékk fréttirnar af dauða fjölskyldu sinnar.
Í frétt BBC kemur fram að 115 nýburar hafi fæðst og dáið á Gaza síðan að stríðið braust út í október í fyrra.
AP greinir frá því að fjölskyldan hafi farið eftir fyrirmælum Ísraelsmanna sem gefin voru út þegar stríðið braust út þess efnis að leita skjóls á miðhluta Gaza. Þar hafði fjölskyldan dvalið síðustu mánuði og talið sig vera í tiltölulega öruggu skjóli.
BBC hefur óskað eftir viðbrögðum frá Ísraelsher vegna árásarinnar í gær en bent er á það að yfirvöld í Ísrael tjái sig sjaldan um árásir eins og þessar.