Rapparinn Gísli Pálmi Sigurðsson hefur verið dæmdur til greiðslu sektar fyrir akstur án réttinda og undir áhrifum. Vísir greindi fyrst frá en þetta er í annað sinn sem Gísli Pálmi er gripinn við akstur undir áhrifum á hálfu ári.
Alls var rapparanum gert að greiða 420 þúsund krónur í sekt en Gísli Pálmi, sem er búsettur í Londin, mætti ekki í dómssal þegar málið var tekið fyrir og hélt því ekki uppi vörnum. Var því litið svo á að brot hans væri sannað.
Hið nýjasta brot átti sér stað föstudaginn 5. janúar á þessu ári en þá var Gísli Pálmi stöðvaður undir stýri við Klapparstíg við Njálsgötu i miðbænum. Við ákvörðun refsingar var horft til þess að sumarið 2023 var Gísli Pálmi einnig tekinn undir áhrifum en þá var honum gert að greiða sekt upp á 900 þúsund krónur og hann sviptur ökurétti í þrjú ár.