Mörg þúsund úkraínskir hermenn hafa verið sendir til Rússlands og búið er að flytja tugi þúsunda Rússa á brott frá Kursk og Belgorod. Úkraínumenn hafa sótt fram tugi kílómetra inn í Rússland og ekkert lát virðist vera á hernaðaraðgerðum þeirra.
Jacob Kaarsbo, aðalgreinandi hjá dönsku hugveitunni Tænketanken Europa og fyrrum starfsmaður leyniþjónustu danska hersins, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að innrásin virðist hafa komið Rússum algjörlega að óvörum.
„Þetta eru ótrúleg mistök leyniþjónustunnar, að Úkraínumenn geti nánast mótspyrnulaust hertekið svo stórt svæði. Þegar maður hefur ekki getuna til að sjá að Úkraínumenn eru að safna saman mörg þúsund manna herliði, þá er eitthvað að,“ sagði hann og bætti við: „Það er fáheyrt að Úkraínumenn hafi hertekið svona mikið rússneskt landsvæði og það segir alla söguna um hversu niðurlægjandi þetta er. Rússar hafa vanmetið Úkraínu og það er mjög athyglisvert.“