fbpx
Föstudagur 03.janúar 2025
Fréttir

Lögregla kölluð til eftir skírn í Hallgrímskirkju – „Ég er mjög hrædd því ég veit ekki hvað hann gerir næst“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 13. ágúst 2024 19:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Móðir sex mánaða gamals drengs, sem var skírður í Hallgrímskirkju síðastliðinn sunnudag, grátbiður lögreglu um að kalla föður drengsins í yfirheyrslu og rannsaka mál gegn honum sem varðar skemmdarverk og ítrekaða ógnvekjandi hegðun. Eftir skírn drengsins stórskemmdi maðurinn bíl konunnar, í þann veginn sem hún ætlaði að aka í burtu frá kirkjunni.

Þetta er í annað skipti á stuttum tíma sem maðurinn fremur skemmdarverk á bíl konunnar en hann hefur í nokkurn tíma sýnt af sér ógnandi hegðun í hennar garð sem virðist stigmagnast. Konan grátbiður lögreglu um að taka manninn í yfirheyrslu og rannsaka málið en hún segir lögreglu draga lappirnar og meðal annars bera fyrir sig manneklu vegna sumarfría. Á meðan getur konan ekki um frjálst höfuð strokið og er sífellt að velta fyrir sér hvort maðurinn sé í nágrenninu og láti til skarar skríða aftur.

„Ég er mjög hrædd því ég veit ekki hvað hann gerir næst,“ segir konan í samtali við DV.

Konan sem í hlut á er frá Kúbu. Þar í landi giftist hún íslenskum manni árið 2009 og þau fluttu til Íslands árið 2010. Þau eignuðust son saman sem er tíu ára gamall í dag. Árið 2020 slitu konan og íslenski maðurinn samvistum en hafa haldið góðum tengslum síðan og verið í vinsamlegum samskiptum, t.d. varðandi uppeldi drengsins.

Konan hefur síðan búið í Reykjavík og starfað sem skólaliði. Árið 2022 kynntist hún manni sem er frá Venesúela. Þau eignuðust dreng saman sem fæddist í febrúar á þessu ári. Skömmu eftir það slitu þau samvistum. Maðurinn er ósáttur við sambandsslitin og þann umgengnisrétt sem honum er úrskurðaður. Að sögn konunnar hefur hann sýnt af sér ógnandi hegðun í vaxandi mæli.

Konan kom heim með flugi að nóttu þann 28. júlí síðastliðinn, ásamt börnum sínum, eftir utanlandsferð með þeim. Er hún lagði bíl sínum nálægt heimili sínu sá hún barnsföðurinn aka fram hjá á sínum bíl. Var henni mjög brugðið enda hánótt og hún nýkomin heim frá útlöndum. Morguninn eftir uppgötvaði hún síðan að búið var að skera á öll fjögur dekkin undir bíl hennar. Lögregla kom á vettvang, kannaði verksummerki og skrifaði skýrslu um málið, þar sem fram kom að hnífi hefði verið beitt við verknaðinn.

Um hálfum mánuði síðar, sunnudaginn 11. ágúst, lét síðan maðurinn aftur til skarar skríða, á skírnardegi sonar síns. Konan fékk þá fréttir af því að barnsfaðirinn sé við kirkjuna, en honum var ekki boðið til skírnarinnar vegna framferðis hans undanfarið. Hringdi hún í lögreglu sem kom á staðinn og ræddi við manninn. Var hann beðinn um að halda sig fjarri. Þegar konan sest inn í bílinn með börnum sínum eftir athöfnina verður hún vör við manninn fyrir aftan bílinn. Hann tók upp lykil og rispaði báðar hliðar bílsins. Hún hringdi á lögreglu sem kom aftur á vettvang en maðurinn var á bak og burt. Lögregla vaktaði heimili hennar næstu klukkustundirnar og reyndi að hafa upp á manninum en án árangurs.

Sem fyrr segir er barnsfaðirinn frá Venesúela. Hann er með dvalarleyfi á Íslandi sem hann þarf að endurnýja reglulega. Hann er sagður vera ekki með fastan dvalarstað og talinn vera í neyslu. Hegðun hans verður sífellt óútreiknanlegri og konan óttast hið versta. Meint athafnaleysi lögreglunnar í málinu undanfarið veldur henni miklum kvíða og öryggisleysi.

„Honum finnst hann geta gert það sem honum sýnist“

Eftir fyrra atvikið sem lýst var hér að ofan kærði konan manninn til lögreglu. Eftir að gengið hafði verið frá kærunni gerðist hins vegar lítið. „Ég hringdi daglega í lögregluna til að þrýsta á þá um að gera eitthvað en þeir sögðu að maðurinn sem var með málið væri farinn í sumarfrí. Svo tók annar lögreglumaður við málinu en það er enn ekki búið að kalla hann í yfirheyrslu. Ég hringdi síðast í lögregluna á mánudaginn og þá var mér sagt að ég væri ekki með sönnun fyrir því að það hefði verið hann sem gerði þetta við bílinn minn. Þá er bara eins og ekkert hafi gerst. Mér finnst þetta mjög ósanngjarnt. Honum finnst hann geta gert það sem honum sýnist því það eru engar afleiðingar.“

Konan skorar á lögregluna að grípa til aðgerða því öryggi hennar og barnanna hennar tveggja sé í húfi. Það sé líka óbærilegt að lifa við þessar aðstæður. „Ég er alltaf að horfa út um gluggana og athuga hvort hann sé fyrir utan. Ég sef illa út af þessu. Ég hef líka átt í erfiðleikum í langan tíma, meðgangan var mjög erfið og fæðingin líka. Heilsan hefur ekki verið góð og ég hef þurft að leita til sálfræðings vegna andlegs álags. Mér finnst bara svo hræðilegt að þetta er að gerast á meðan það eru tvö börn hérna á heimilinu og lögreglan gerir ekki neitt.“

Hún segist hafa fengið fyrirheit um að hún gæti fengið manninn úrskurðaðan í nálgunarbann en þó hafi ekkert gerst í þeim málum eftir að hún bað um það hjá lögreglu. Hún hefur líka fengið fyrirheit um það hjá lögreglu að maðurinn verði kallaður til yfirheyrslu en það liggur engin dagsetning varðandi það á borðinu.

„Þeir verða að gera eitthvað núna því okkur er ekki óhætt. Við vitum ekki hvað hann gerir næst. Þeir segjast vera að vinna í málinu en það gerist ekki neitt,“ segir konan, sem óttast um öryggi sitt og barna sinna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Fundu tengsl milli árásarinnar við Trump-hótelið og árásarinnar í New Orleans

Fundu tengsl milli árásarinnar við Trump-hótelið og árásarinnar í New Orleans
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Háskaleikur ungmenna kallaði á afskipti lögreglu

Háskaleikur ungmenna kallaði á afskipti lögreglu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fjarskiptafyrirtæki mátti bjóða bróður viðskiptavinar betri kjör

Fjarskiptafyrirtæki mátti bjóða bróður viðskiptavinar betri kjör