Í gær greindi MBL frá því að til stæði að starfsmenn álversins í Straumsvík myndu á næstunni fá hinsegin fræðslu frá Samtökunum ’78. Óhætt er að segja að þó nokkur fjöldi manns sé svo ósáttur við þessa tilhögun að viðkomandi hafi kosið að ausa úr skálum reiði sinnar á Facebook-síðu miðilsins, í athugasemdum við færslu þar sem umræddri frétt er deilt. Fjöldi athugasemdanna einkennist af þó nokkrum fordómum í garð hinsegin fólks og hinsegin fræðslunnar.
Í frétt MBL kemur fram að ISAL sem rekur álverið segist hafa á undanförnum árum lagt aukna áherslu á mannréttindi, jafnrétti og sálfélagslega líðan í fræðslu sem veitt er starfsmönnum. Skyldumæting er fyrir starfsmenn álversins í fræðsluna en séu þeir ekki á vakt fá þeir sérstaklega greitt fyrir að mæta.
Eins og áður segir hefur fjöldi ummæla verið ritaður í athugasemdum á Facebook-síðu MBL, við færslu þar sem fréttinni er deilt. Þau eru alls ekki öll neikvæð en þau sem ósátt eru við fræðsluna og hinsegin fólk eru flest ekki að skafa utan af því en ekki verður séð að nokkur þeirra séu starfsmenn í álverinu í Straumsvík:
„Þetta er svo mikið rugl, öll þessi hinsegin meðvirkni er alveg komin út fyrir mörk hins heilbrigðar skynsemi.“
„Ekki vera hissa. Hinsegin fræðin eru kjarni hinna nýju andkristnu trúarbragða Vestrænna ríkja.“
„Til hvers í andskotanum ljóta ruglið.“
„Þarf maður að vera meðvitaður um hvar fólk stingur typpinu sínu til að framleiða ál? Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.“
Sum sem agnúast út í hinsegin fræðsluna segjast almennt ekki á móti slíkri fræðslu eða hinsegin fólki en það eigi ekki við um trans fólk:
„Hinsegin fræðsla gæti alveg verið gagnleg, en transáróður ætti ekki að vera á slíku námskeiði, ég myndi stinga tappa í eyrun ef ég væri neydd til að taka þátt.“
„Þá fylgir bakslagið…fólk fær því meiri óbeit því meira sem reynt er að þvinga og troða þessu rugli inn á það…fólk samþykkir samkynhneygð en þessa trans-geðveiki EKKI með sín 100 kyn sem það vogar sér svo að heilaþvo börn með. Því fleiri fánar og málaðar götur því meira bakslag. Það væri mikið nær að hafa gagnkynsfræðslu fyrir hinsegin fólk.“
„Trans“fræðslan“ (lesist áróður), fjallar að mestu um líkamann, eða réttara sagt vanvirðingu við líkamann (skera burtu líkamsparta og búa til aðra) til að samstilla við huga sem er i ójafnvægi eða búið að heilaþvo.“
Þó nokkur þeirra sem ósátt eru við fræðsluna segja að ekki sé í raun um að ræða fræðslu heldur heilaþvott án þess þó að færa nein rök fyrir því:
„Normalisering í látlausum heilaþvætti.“
„Við skulum orða hlutina rétt. Þetta kallast innræting eða heilaþvottur.“
Í orðabók Merriam-Webster er heilaþvottur skilgreindur á þann hátt að um sé að ræða innrætingu á tilteknum skoðunum og hugmyndum með hætti sem einkennist af þvingunum.
Á vef Samtakanna ’78 segir meðal annars um hinsegin fræðsluna að hún snúist um hvað það þýði að vera hinsegin og hvert sé hægt að leita eftir aðstoð fyrir hinsegin fólk. Einnig segir á öðrum stað á vef samtakanna:
„Það er ómögulegt að gera mig gagnkynhneigða með einu samtali, það er fjarstæðukennd hugsun. Það er á sama hátt ekki hægt að gera neinn hinsegin, hvorki börn né fullorðna, og klukkustundarlöng fræðsla hefur svo sannarlega ekki þau áhrif. Markmið Samtakanna ‘78 með fræðslustarfinu er að auka skilning fólks á að fólk er fjölbreytt og létta á mögulegri skömm þeirra barna og ungmenna sem eru hinsegin sjálf eða eiga hinsegin fjölskyldumeðlimi. Það segir sig svo sjálft að þegar skömminni er aflétt þorir fólk frekar að koma út sem hinsegin, það upplifir frelsi til að bera höfuðið hátt.“
Í umfjöllun Nútímans og Harmageddon eru færð rök fyrir því að tilgangur ISAL með því að senda alla starfsmenn í álverinu í Straumsvík í hinsegin fræðslu sé ekki vegna umhyggju fyrir hinsegin fólki heldur til að ná sér í svokallaða hinsegin vottun frá Samtökunun ’78 og nýta hana til að bæta ímynd sína. Vísar Frosti Logason umsjónarmaður Harmageddon meðal annars í skjáskot af ummælum Rannveigar Rist forstjóra ISAL á starfsmannavef fyrirtækisins um að fyrirtækið væri í samstarfi við samtökin um að fá slíka vottun.
Um hinsegin vottunina segir á vef Samtakanna 78 að hún byggist fyrst og fremst á fræðslu.
Frosti segir í broti úr þættinum sem birt er á Youtube að það sé skrýtið að álframleiðslufyrirtæki sé að senda starfsmenn sína í hinsegin fræðslu. Hann sjái ekki hvernig „hinsegin hugmyndafræði“ komi álveri við.
Í brotinu horfir Frosti hins vegar framhjá því yfirlýsta markmiði fræðslunnar að auka skilning á því hvað það er að vera hinsegin en gerir þeim mun meira úr því að Samtökin ’78 fái greitt fyrir að standa að fræðslunni og segir enga þörf á slíkri fræðslu hér á landi árið 2024. Miðað við áðurnefnd ummæli má hins vegar velta fyrir sér hvort það sé orðum aukið að þörfin fyrir að fræða fólk um hvað það er að vera hinsegin sé engin.