fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Pétur Jökull spurður út í tíðar ferðir sínar -„Ég átti erfitt með að fóta mig á Íslandi“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 12. ágúst 2024 10:02

Pétur Jökull kemur í dómsal. Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Uppfærð frétt

Aðalmeðferð í máli gegn Pétri Jökli Jónassyni hófst í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur og heldur áfram tvo næstu daga. Páll er sakaður um tilraun til stórfellds fíkniefnabrots, sem fimmti sakborningurinn í stóra kókaínmálinu. Hinir sakborningarnir fjórir voru sakfelldir og dæmdir í fyrra. Meðal þeirra var Páll Jónsson, kallaður Páll timbursali, 68 ára gamall maður, en efnin voru flutt í trjádrumbum frá Brasilíu í gegnum fyrirtæki Páls í Hafnarfirði.

Í ákæru gegn Pétri Jökli segir að hann hafi ásamt fjórum öðrum mönnum, „staðið að innflutningi á 99,25 kg (með 81% – 90% styrkleika) af kókaíni hingað til lands frá Brasilíu með viðkomu í Rotterdam í Hollandi. Efnin voru falin í sjö trjádrumbum sem komið var fyrir í gámi með númerinu […], en efnin voru haldlögð af hollenskum yfirvöldum þann 30. júní 2022 og var gerviefnum komið fyrir í trjádrumbunum. Gámurinn kom hingað til lands aðfaranótt 25. júlí 2022 og var afgreiddur af tollsvæði þann 2. ágúst 2022 og fluttur þaðan að […] í Reykjavík. Þann 4. ágúst 2022 voru trjádrumbarnir fjarlægðir úr gámnum og fluttir að […] í Hafnarfirði, þar sem hin ætluðu fíkniefni voru fjarlægð úr trjádrumbunum. Þar var þeim pakkað og hluti þeirra fluttur áleiðis í bifreiðinni HM-X65, til ótilgreinds aðila hér á landi, til að hægt yrði að koma efnunum í sölu og dreifingu, en lögregla lagði hald á hluta af ætluðum fíkniefnum í bifreiðinni þar sem henni hafði verið lagt í bifreiðastæði við […] í […].“

Málinu vísað frá

Málinu var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur þann 20. júní. Grundvöllur frávísunarinnar var óskýr tilgreining á ætlaðri hlutdeild Péturs í brotinu.  Landsréttur felldi þann úrskurð úr gildi og gerði héraðsdómi að rétta í málinu.

Í ákæru er ekki verknaðarlýsing á þátttöku Péturs í málinu og kemur ekki fram hvað hann á að hafa nákvæmlega gert annað en að taka þátt í smyglinu með einhverjum hætti.

Spurður út í ferðir sínar

Pétur Jökull gekk í dómsal með kókflösku fyllta vatni. Hann var klæddur í áletraðan bómullarbol og jakkapeysu með Boss-merki. Hann var einnig klæddur í Boss-skó.

Saksóknari spurði Pétur Jökul út í ferðir hans árið 2022 og kom í ljós að hann hafði verið í Brasilíu, Spáni, Tælandi og Íslandi. Dvalartími hans í Brasilíu passar við dagsetningu á kókaínsmyglinu með gámi þaðan til Rotterdam. Pétur var spurður hvort hann hefði mögulega verið í Rotterdam í Hollandi á tilteknum tíma og sagði hann það geta staðist, vegna flugs. Skipið með gámnum lagðist að höfn í Rotterdam og þar skiptu lögreglumenn fíkniefnunum út fyrir gerviefni.

Pétur var spurður hvað hann hefði verið að gera í Brasilíu. Sagðist hann hafa verið að skemmta sér og hitta vini. Hann hefði haft áform um að kynna sér brasilíska bardagaíþrótt sem hann hafði verið að æfa en Covid-takmarkanir hefðu komið í veg fyrir það.

Pétur var spurður út í ástæður fyrir heimshornaflakki sínu á árinu 2022. Hann sagði: „Ég átti erfitt með að fóta mig á Íslandi og var að gera upp við mig hvort ég ætti að vera á Spáni og síðan var ég að spá í hvort ég ætti að vera í Brasillíu. Síðan varð Tæland áfangastaðurinn.“

Segist aldrei hafa séð Pál timbursala

Pétur Jökull var spurður út í tengsl sín við sakborningana fjóra í stóra kókaínmálinu, Hann sagðist ekki þekkja þá fyrir utan örlítil kynni við Birgi Halldórsson. „Ég kannast við hann, man eftir honum á Hverfisgötunni,“ sagði hann. Sagðist hann hafa verið að leigja ásamt Birgi og fleiri mönnum í húsnæði á Hverfisgötu.

Spurður út í Pál Jónsson, Pál timbursala, sagði hann: „Ég hef aldrei séð hann áður.“

Það sama gilti um Pál Duur. Sagðist aldrei hafa séð hann áður.

Pétur Jökull var spurður hvort hann kannaðist við Sverri Þór Gunnarsson, öðru nafni Svedda tönn. Sá er ekki sakborningur í málinu. „Ég þekki hann frá því í gamla daga,“ sagði Pétur Jökull en aðspurður sagði hann að þeir hefðu engin samskipti átt síðustu árin.

Saksóknari greindi frá því að einn sakborningurinn, Daði Björnsson, hefði verið í sambandi við tiltekinn mann vegna smyglsins. Sá héti Pétur og væri stórgerður, þrekinn og ljóshærður. Daði tilgreindi ekki eftirnafn eða miðnafn þessa Péturs. Lýsing Daða á manninum passar við Pétur Jökul. Einnig kom fram í vitnisburði Daða að Pétur þessi hefði búið á Lokastíg, sem var tilfellið með Pétur Jökul. – Pétur Jökull neitar að vera þessi maður. Maðurinn lýsti jakka af tiltekinni gerð sem Pétur þessi hefði klæðst. Pétur Jökull játaði að geta átt slíkan jakka. „Örugglega, ég á fullt af jökkum,“ sagði hann.

Símtalið spilað í dómsal

Spilað var símtal sem Daði Björnsson átti við manninn sem hann kallaði Pétur, þar sem þeir ræða fyrirætlanir varðandi smyglið. Í upphafi aðalmeðferðar lagði saksóknari fram skýrslu raddgreiningarsérfræðings sem á að leiða líkur að því að viðmælandi Daða í símtalinu sé Pétur Jökull.

Símtalið var spilað í dómsal. Ekki var hægt að ráða af upptökunni hvort umræddur maður væri Pétur Jökull eða ekki. Hann ítrekaði fyrir dómi að þetta væri ekki hann.

Dómari spurði Pétur Jökul út í einkahagi

Dómari spurði Pétur Jökul út í fjölskylduhagi hans. Sagði hann mikilvægt að þær upplýsingar lægju fyrir þar sem svo gæti farið að Pétur Jökull yrði dæmdur til fangelsisvistar.

Pétur Jökull sagðist eiga eina uppkomna dóttur. Hann sagðist eiga kærustu í Tælandi. Hann sagðist hafa unnið við að kenna börnum raftónlist á Tælandi.

Daði Björnsson gaf skýrslu

Eftir að Pétur Jökull hafði lokið skýrslugjöf gaf Daði Björnsson skýrslu. Hann var spurður hvernig samskipti hans við áðurnefndan Pétur hefðu farið fram, sagði hann að þau hefðu bæði verið í persónu og í gegnum síma. Í síma hefði mest verið notast við samskiptaforritið Signal.

Daði sagðist eingöngu hafa verið í samskiptum við Pétur en ekki við aðra sakborninga í málinu.

Aðspurður sagðist Daði hafa hitt Pétur í eigin persónu en mundi ekki hvort það hefði verið einu sinni eða oftar.

Daði sagðist muna atburði málsins óljóst þar sem hann hefði á þeim tíma verið undir miklum áhrifum ýmissa efna.

Segir manninn ekki vera Pétur Jökul

Verjandi Péturs Jökuls, Snorri Sturluson, spurði Daða hvort maðurinn sem situr við hlið Snorra, sakborningurinn, sé maðurinn sem hann var í samskiptum við vegna málsins.

Daði sagði einfaldlega: „Nei.“ – Hann samsinnti við ítrekaða spurningu Snorra, að þetta væri ekki maðurinn. Það væri annar Pétur sem hann hefði átt í samskiptum við.

Dómari ítrekaði spurninguna og Daði svaraði með sama hætti. Aðspurður sagðist Daði ekki vita hver sá Pétur var sem hann átti í samskiptum við. Þar spilaði inn í að hann hefði verið undir miklum áhrifum ýmissa efna á þessum tíma.

Páll timbursali ber vitni

Aðalsakborningur í  málinu, Páll Jónssono timbursali, bar vitni í málinu í gegnum fjarfundabúnað, frá fangelsinu að Kvíabryggju þar sem hann afplánar.

Páll segist aðeins hafa verið tengdur við tvo menn í málinu, þ.e. tvo sakborninga, Jóhannes Duur og Birgi Halldórsson.

Páll sagðist ekki þekkja Pétur Jökul Jónasson, aldrei séð hann fyrr eða síðar.

Birgir Halldórsson ber vitni

Einn dæmdra sakborninga í málinu, Birgir Halldórsson, sagðist neita því að hann hefði vitnastöðu í málinu þar sem hann væri að afplána dóm vegna þess. Hann sagðist ekki vilja svara spurningum.

Hann lýsti því þó yfir að hann hefði aldrei átt í samskiptum við Pétur Jökul í þessu máli en hann sagðist þekkja hann engu að síður.

Hann gat lítið gefið út um hvernig hann þekkti Pétur Jökul, hann sagði, „Þetta er Ísland,“ og meinti að margir þekktust í svona litlu samfélagi.

Birgir kannaðist við að hafa leigt í sama húsi og Pétur Jökull í húsnæði á Hverfisgötu. Báðir tóku hins vegar fram að þeir hefðu ekki leigt saman, en þeir hefðu leigt í sama húsi.

Hann neitaði síðan að tjá sig frekar og vildi ekki svara spurningum saksóknara.

„Ég er langt kominn með afplánun í þessu máli og þetta er búið gagnvart mér, það er búið að dæma mig á tveimur dómstigum,“ sagði hann.

Birgir benti á að ef allir fimm hefðu verið saksóttir á sínum tíma þá hefði hann haft þann rétt að tjá sig ekki um sakarefni. Hann sagði það ekki ganga upp að sá réttur væri tekinn af honum þegar hann væri núna kallaður fyrir dóm sem vitni.

Dómari ákvað að virða þennan vilja Birgis og þurfti hann ekki að svara frekari spurningum.

Sveddi tönn var til rannsóknar vegna málsins

Fram kom í máli dómara að meðal þeirra sem voru til rannsóknar í málinu en voru ekki ákærðir, hafi verið Sverrir Þór Gunnarsson, öðru nafni Sveddi tönn, en hann býr í Brasilíu og hefur verið sakfelldur þar í landi fyrir stórfelld fíkniefnabrot.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Kringlan komin á fulla ferð á ný

Kringlan komin á fulla ferð á ný
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“
Fréttir
Í gær

„Háir stýrivextir eru nefnilega bara mjög fín kjarabót fyrir þau sem eiga peninga“

„Háir stýrivextir eru nefnilega bara mjög fín kjarabót fyrir þau sem eiga peninga“
Fréttir
Í gær

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“