Írar eru æfir yfir því að breski nýnasistaforinginn Tommy Robinson ferðist um á fölsuðu írsku vegabréfi. Robinson ber mikla ábyrgð á óeirðunum í kjölfar morðanna í Southport fyrr í sumar. Írskir þingmenn hafa kallað eftir rannsókn á málinu.
Í júní var Robinson stöðvaður við landamæraeftirlit í Kanada eftir að hann hafði framvísað írsku vegabréfi. Í vegabréfinu kom fram hans raunverulega nafn, Stephen Yaxley-Lennon, en þar stóð að hann væri fæddur í Írlandi. Robinson á vissulega írska móður en hann er hins vegar fæddur og uppalinn í Luton í Bretlandi. Grunur leikur því á að hann sé að ferðast um á fölsuðu eða illa fengnu vegabréfi.
Í frétt breska blaðsins The Guardian segir að nokkrir þingmenn í írska þinginu, Dáil, hafa farið fram á að málið verði rannsakað í samvinnu við bresk stjórnvöld. Það sé alvarlegt að maður með þessa sögu sé að ferðast um á fölsuðu írsku vegabréfi.
Robinson hefur tengst mörgum öfgahægri og nýnasistasamtökum. Meðal annars English Defence League, sem eiga stóran þátt í óeirðunum í sumar. Aðgerðir hans hafa einkum borist gegn múslimum. Í fjórgang hefur Robinson verið dæmdur til fangelsisvistar.
Íslendingar þekkja Robinson best vegna ráðstefnu sem hann átti að koma fram á á Grand hótel. Ráðstefnan var á vegum félagsins Vakurs – Samtök um evrópska menningu. Þegar Robinson mætti ekki var ráðstefnan blásin af.
Reglulega er fjallað um Robinson í fjölmiðlum í Bretlandi. Meðal annars vegna yfirlýsts stuðnings hans við Vladímír Pútín Rússlandsforseta og innrásina í Úkraínu, fjársvik og að vera eltihrellir.
Eftir morð á þremur stúlkum í Southport í sumar dreifði Robinson falsfréttum um að gerandinn væri múslimi og hælisleitandi. English Defence League og fleiri nýnasistasamtök hvöttu og skipulögðu óeirðir í kjölfarið. Var meðal annars kveikt í heimilum hælisleitenda og ráðist á lögregluþjóna.
„Allan vafa varðandi vegabréfakerfi landsins verður að taka alvarlega,“ sagði Charles Flanagan, fyrrverandi dómsmálaráðherra Írlands. En hann fer nú fyrir utanríkis og varnarmálanefnd írska þingsins. „Hæfisskilyrði írsks ríkisborgararéttar og rétt til að hafa írskt vegabréf eru mjög greinilega útlistuð í lögum. Öll brot á þessu verður ekki aðeins að taka alvarlega heldur að rannsaka af þar til bærum yfirvöldum.“
Annar þingmaður, Duncan Smith, lýsti einnig yfir þungum áhyggjum af málinu og hvatti bresk stjórnvöld til að upplýsa allt um málið.
„Við verðum að mæta allri hægri öfgastefnu þegar við sjáum hana. Ef einhver er að ferðast um á írsku vegabréfi til þess að skipuleggja öfga hægri hatur þá verðum við að leita allra leiða til að stöðva það,“ sagði Smith.
„Það veldur áhyggjum að einhver sem er að hvetja til kynþáttabundins ofbeldis í Bretlandi og Írlandi virðist vera að ferðast um á írsku vegabréfi,“ sagði hinn þriðji þingmaðurinn, Paul Murphy.
Óvíst er hvers vegna Robinson notar írskt vegabréf til að ferðast um á milli staða. Í frétt Guardian segir að það sé hugsanlega til þess að komast fram hjá löngum biðröðum fyrir breska farþega á flugvöllum sem myndast hafa eftir útgöngu landsins úr Evrópusambandinu. Mun erfiðara er fyrir Breta að ferðast á milli staða nú en áður.
Önnur ástæða gæti verið hinn mikli fjöldi fangelsisdóma sem hann hefur á bakinu. Svo sem fyrir líkamsárásir og vörslu fíkniefna. Robinson hefur einnig áður verið dæmdur fyrir að nota vegabréf annars manns, það er fyrir skjalafals.