fbpx
Þriðjudagur 12.nóvember 2024
Fréttir

Þetta eru höfuðpaurarnir í stóra fíkniefnamálinu – Peningabúntin voru afhent og sótt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 11. ágúst 2024 09:00

Fyrir utan Bílvog, Auðbrekku 17. Mynd úr lögregluskýrslu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingfesting verður í stóra fíkniefnamálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur kl. 14 á mánudag. Þá munu 18 sakborningar tjá afstöðu sína til ákæruefna. Helmingur hópsins er ákærður fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfelld fíkniefnalagabrot sem þau sammæltust um að fremja á árinu 2023 og fram til 11. apríl 2024, þegar lögregla stöðvaði starfsemi hópsins.

DV hefur undir höndum ákæru héraðssaksóknara í málinu en einnig viðamikla rannsóknarskýrslu lögreglu. Í skýrslunni segir að niðurstaða rannsóknarinnar sé afgerandi, skýrt komi fram að um sé að ræða hóp af einstaklingum sem vinna sameiginlega að því markmiði að koma fíkniefnum til landsins og dreifa þeim í ágóðaskyni. Ákveðnir aðilar fari með stjórn hópsins.

Sá sem stýrði hópnum heitir Jón Ingi Sveinsson. Hægri hönd hans var maður að nafni Pétur Þór Elíasson. Það er niðurstaða lögreglu að annar maður hafi síðan tekið við hlutverki Péturs. Samkvæmt heimildum DV kom sá maður hins vegar ekki að starfi hópsins fyrr en haustið 2023, en segja má að hópurinn hafi nánast verið lamaður eftir þann tíma, enda undir smásjá lögreglu.

Ljóst er að Jón Ingi Sveinsson hafði sérstöðu og var óskoraður foringi hópsins, sem hann rak eins og fyrirtæki, réð fólk til starfa og rak það, útdeildi sumarleyfum, ákvarðaði verkaskiptingu, greiddi laun o.sfrv. Pétur var hans hægri hönd. Hinar 15 manneskjurnar voru fótgönguliðar með mismunandi hlutverk og verkefni en verkaskipting í hópnum er skýr. Sumir störfuðu við að selja fíkniefni, aðrir sáu um að geyma fíkniefni, sumir sáu um að pakka fíkniefnum inn og koma þeim í geymslu, aðrir tóku við fjármunum og sáu um að þeim væri skipt út fyrir gjaldeyri, enn aðrir höfðu það hlutverk að flytja fé til útlanda.

Jón Ingi Sveinsson er fæddur árið 1977. Hann er með einn refsidóm á bakinu sem DV veit um, skilorðsbundinn 45 daga fangelsisdóm fyrir vörslu fíkniefna, sem kveðinn var upp í fyrrahaust. Þrátt fyrir lítinn brotaferil er Jón Ingi nokkuð þekktur í undirheimum Reykjavíkur fyrir umsvif sín. Hann er hins vegar óþekkt nafn á meðal almennings, rétt eins og allir aðrir sakborningar í málinu.

Pétur Þór Elíasson er fæddur árið 1988. Hann er með þrjá refsidóma að baki en aðeins einn nýlegan, frá 2022, tveggja ára fangelsi fyrir vörslu á miklu magni af fíkniefnum, m.a. amfetamíni.

Seðlabúnt á bifreiðaverkstæði

Bifreiðaverkstæðið Bílvogur/Exaltbílar, að Auðbrekku 17 í Kópavogi, kemur mikið við sögu í gögnum málsins. Verkstæðið var í eigu Péturs Þórs Elíassonar, næstráðanda Jóns Inga í hópnum. Um tíma var allt reiðufé sem féll til við sölu fíkniefna hópsins flutt á þetta verkstæði. Þangað var það líka sótt og flutt annað. Tilteknir aðilar sáu síðan um að láta skipta fénu í gjaldeyri sem síðan var fluttur til útlanda til að fjármagna meiri fíkniefnainnflutning, oftast frá Spáni.

Lögreglan fylgdist með verkstæðinu og varð vitni að því er einn sakborninganna kom þangað með fé í Krónupoka og gekk síðan tómhentur í burtu. Á verkstæðið kom stuttu síðar annar sakborningur í málinu og fór burtu með pokann. Lögregla veitti þeim manni eftirför og stöðvaði hann. Við leit í bíl hans fundust yfir 12 milljónir króna eða 12.396.000.

Við rannsókn á farsímum ökumannsins kom í ljós að hann átti að skipta peningunum í gjaldeyri og fá fyrir það 945 þúsund krónur.

Reiðufé sem fór í gegnum verkstæðið Bílvogur. Mynd úr rannsóknarskýrslu.

Þó að Bílvogur/Exaltbílar hafi verið vettvangur þessa peningaþvættis var verkstæðið sjálft ekki peningaþvottastöð í eiginlegum skilningi, að minnsta kosti kemur ekkert fram um það í gögnum málsins. Peningarnir fóru ekki inn í rekstur verkstæðisins og samkvæmt heimildum DV hefur starfsemi þess, þ.e. bílaviðgerðir, verið blómleg.

Þess má geta að síðastliðið vor tóku nýir eigendur við rekstri Bílvogs og hafa þeir ekki tengsl við þetta mál.

Ástarþríhyrningur

Vinasamband þeirra Jóns Inga Sveinssonar og Péturs Þórs Elíassonar nær langt aftur í tímann og voru þeir meðal annars saman til sjós löngu áður en starfsemi þessa hóps hófst. En það slettist upp á vinskapinn í fyrrahaust þegar Pétur hóf ástarsamband við fyrrverandi kærustu Jóns Inga. Samkvæmt rannsóknargögnunu voru Pétur og konan í felum um tíma og gistu meðal annars á hóteli.

Þetta er sagt hafa leitt til þess að annar, áðurnefndur vinur Jóns Inga, sem nýlega var genginn til liðs við hópinn, hafi tekið yfir stöðu Péturs Þórs sem hægri hönd Jóns Inga. En eins og áður var greint frá þá var hópurinn um þetta leyti nánast búinn að vera, enda kominn undir smásjá lögreglu sem hafði fyrst afskipti af honum í september 2023.

Fá merki um ofbeldi

Þessi spenna og ótti í tengslum við ástarþríhyrning kann að vekja hugmyndir um ógnandi samskipti innan hópsins en svo virðist þó almennt alls ekki hafa verið raunin. Samskipti virðist að mestu vera ofbeldislaus. Langvarandi vináttusamband og náin fjölskyldutengsl eiga við um stóran hluta af hópnum. Í ákæru og rannsóknarskýrslunni fer lítið sem ekkert fyrir ofbeldislýsingum. Raunar er einn sakborninganna ákærður fyrir ofbeldisbrot sem virðist ekki hafa nein tengsl við þetta mál. Samkvæmt heimildum DV var maðurinn þar að hefna fyrir kynferðisbrot gegn nákomnum aðila.

Í þeim samskiptum milli sakborninga sem birt eru í rannsóknarskýrslunni og hefur verið aflað með skoðun á símtækjum sakborninga er ekki að finna ofbeldisfulla hegðun. Þá fara engar sögur af handrukkunum eða öðrum misþyrmingum í starfsemi hópsins þó að hann sé stórtækur í fíkniefnasölu. Og skuldir koma vissulega við sögu. Þannig segist einn sakborninganna hafa skuldað höfuðpaurnum, Jóni Inga, tíu milljónir króna. Til að greiða fyrir það tók hann þátt í frægri smyglferð með skemmtiferðaskipinu Aidasol en annar sakborningur reyndi í þeirri ferð að smygla sex kílóum af kókaíni og amfetamíni með skipinu hingað til lands. Efnin voru falin í steikarpottum. Lögregla sat fyrir mönnunum og handtók þá og haldlagði efnin. Einnig handtók hún sakborning sem sendur var til að sækja þá á bíl. Þennan hluta málsins hefur verið fjallað um áður:

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi

Helstu fíkniefni sem haldlögð hafa verið í húsleitum lögreglu við rannsókn málsins eru kókaín og afmetamín, en einnig koma við sögu metamfetamín, kannabis og ýmis fleiri efni.

Höfuðpaurarnir tveir, Jón og Pétur, eru báðir í gæsluvarðhaldi. Þrír aðrir sakborningar eru einnig í gæsluvarðhaldi, en það er vegna þátttöku þeirra í Aidasol-smyglinu.

Sem fyrr segir verður þingfesting í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur á mánudag kl. 14. Þetta er viðamikil dómsathöfn því 18 manns koma fyrir dóminn. Er áætlað að þingfestingin taki tvær klukkustundir.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Spyr hvort „Barna­verndarpáfinn“ sé hafður í felum – „Meðan kjallarinn morknar verður íburðurinn alltaf meiri í risinu“

Spyr hvort „Barna­verndarpáfinn“ sé hafður í felum – „Meðan kjallarinn morknar verður íburðurinn alltaf meiri í risinu“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

„Þetta er eiginlega fáránlegt kl. 23 þann 11. nóvember!“

„Þetta er eiginlega fáránlegt kl. 23 þann 11. nóvember!“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Allt stefnir í að rekstrarfélag Kolaportsins verði úrskurðað gjaldþrota á morgun – Skuldar borginni 200 milljónir í leigu

Allt stefnir í að rekstrarfélag Kolaportsins verði úrskurðað gjaldþrota á morgun – Skuldar borginni 200 milljónir í leigu
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sjúkraliði á Vogi í sambúð með manni sem er til rannsóknar vegna stórs fíkniefnamáls

Sjúkraliði á Vogi í sambúð með manni sem er til rannsóknar vegna stórs fíkniefnamáls
Fréttir
Í gær

Heimildin birtir fréttina sem byggist á leyniupptökunum: „Við getum aldrei talað um að hann sé að gera það fyrir vin sinn“

Heimildin birtir fréttina sem byggist á leyniupptökunum: „Við getum aldrei talað um að hann sé að gera það fyrir vin sinn“
Fréttir
Í gær

Majónes-drottningin Kleópatra vinnur enn einn sigurinn fyrir dómi

Majónes-drottningin Kleópatra vinnur enn einn sigurinn fyrir dómi