Lögreglan á Suðurlandi hefur sent frá sér tilkynningu varðandi leita að ferðalöngum í neyð í Kerlingarfjöllum. Segir í tilkynningunni að sterkar vísbendingar séu um að neyðarbeiðnin hafi verið falsboð og engir ferðamenn séu innlyksa í helli í Kerlingafjöllum, grein hefur verið frá.
Tilkynningin er eftirfarandi:
„Sem kunnugt er hefur umfangsmikil leit staðið yfir frá því seint í gærkvöldi í nágrenni við Kerlingarfjöll í kjölfar neyðarbeiðni sem barst Neyðarlínunni kl. 22:18 þess efnis að tveir aðilar væru innlyksa í helli á svæðinu. Lögreglan á Suðurlandi hefur í dag unnið að því með aðstoð tölvurannsóknardeildar LRH og fleiri sérfróðra aðila að greina uppruna neyðarbeiðninnar sem um ræðir.
Sterkar vísbendingar hafa nú komið fram sem benda til að um falsboð sé að ræða. Í ljósi þessa sem og þess að hin umfangsmikla leit sem staðið hefur yfir frá í gærkvöldi hefur ekki skilað neinum nýjum vísbendingum hefur lögreglustjórinn á Suðurlandi að höfðu samráði við Landsbjörgu ákveðið að fresta leit þar til frekari vísbendingar koma fram.
Lögreglan mun áfram rannsaka málið.
Lögreglan á Suðurlandi þakkar öllum þeim fjölmörgu aðilum sem komu að leitinni með einum eða öðrum hætti.“