Eins og allir vita stendur Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum nú yfir. Veðrið hefur sett nokkurn strik í reikninginn nú þegar hjá gestum hátíðarinnar og ekki er ólíklegt að svo verði einnig þegar lokakvöld hátíðarinnar rennur upp í kvöld með áframhaldandi tónleikahaldi og svo einum af hápunktum hátíðarinnar, Brekkusöngnum. Á vef veðurstofunnar er sérstaklega varað við hvassviðri í Vestmannaeyjum með snörpum vindhviðum en einnig er spáð mikillli rigningu.
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland sem tekur gildi klukkan 18 í kvöld og rennur út klukkan 6 í fyrramálið.
Í viðvöruninni er Vestmannaeyja sérstaklega getið og þar spáð meðalvindi upp á 15-20 metra á sekúndu og að búast megi við snörpum vindhviðum. Einnig kemur fram að líkur séu á töluverðri eða mikilli rigningu.
Miðað við úrkomutölur í myndaspá á vef Veðurstofunnar verður rigningin í Vestmannaeyjum töluverð. Spáin miðar við veðurstöðina á Stórhöfða en samkvæmt henni verður úrkoman á milli klukkan 19 og 23 í kvöld 24 millimetrar sem verður að teljast mikil úrkoma á ekki lengri tíma.
Samkvæmt dagskrá Þjóðhátíðar eiga að hefjast tónleikar á Brekkusviði klukkan 20:20. Þar munu ýmsir listamenn koma við sögu en sjálfur Brekkusöngurinn á að hefjast klukkan 23 en miðað við spá Veðurstofunnar ætti mesta rigningin að vera búin um það leyti en ekkert lát verður þó á hvassviðrinu.
Jónas Guðbjörn Jónsson formaður Þjóðhátíðarnefndar tjáði Vísi að ekki sé annað fyrirhugað en að engar breytingar verði gerðar á dagskránni þrátt fyrir veðurspánna.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hröktust þó nokkrir gestir Þjóðhátíðar undan hvassviðrinu í Herjólfsdal vegna hvassviðris í gær. Höfðu þá tjöld viðkomandi gesta fokið burt eða skemmst. Fékk töluverður hópur inni í yfirbyggðu knattspyrnuhúsi Eyjamanna, Herjólfshöllinni.