Lögreglan á Norðurlandi eystra er með til rannsóknar hnífstungumál á Akureyri sem kom upp á þriðja tímanum í nótt. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu embættisins en fram kemur að aðilar séu í haldi lögreglu vegna rannsóknar málsins. Lögreglan segist ekki veita frekari upplýsingar um málið aðrar en þær að þolandinn var fluttur til aðhlynningar á Sjúkrahúsið á Akureyri og er hann ekki talinn í lífshættu.
Sjónarvottur að árásinni hefur tjáð DV að sér hafi virst sem afbrýðissemi hafi verið kveikjan að árásinni. Kona hafi lagt að kærasta sínum með hníf í kjölfar þess að hann veitti annarri konu athygli. Þetta er þó enn óstaðfest en vegfarendur munu hafa tekið upp myndbönd af atburðarásinni.
Mikið er af fólki á Akureyri vegna hátíðarinnar Ein með öllu sem fer fram um verslunarmanna helgina. Töluvert var af fólki að skemmta sér í miðbænum og talsverður erill hjá lögreglu. Umrædd árás var hins vegar eina meiriháttar verkefni laganna varða og almennt fóru hátíðarhöldin því vel fram.
Veður er með ágætum norðanheiða ólíkt stöðunnu á sunnanverðu landinu þar sem gular viðvaranir óma og von er á úrkomu og hvassviðri.