fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Ráðuneyti Lilju úrskurðaði loksins í fjögurra ára gömlu máli – Kvikmynd var sögð ekki nógu vel klippt og yfirborðskennd

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 1. ágúst 2024 13:30

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra MYND/ANTON BRINK

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur úrskurðað í kærumáli sem barst ráðuneytinu í maí 2021 en upphaf málsins nær allt aftur til janúar 2020. Í október það ár tilkynnti Kvikmyndamiðstöð Íslands aðstandendum ónefndrar kvikmyndar að þeim hefði verið synjað um eftirvinnslustyrk meðal annars á þeim grundvelli að það þyrfti að klippa hana betur og að hún væri yfirborðskennd. Felldi ráðuneytið þennan úrskurð Kvikmyndamiðstöðvar úr gildi. Líklegt er að um sé að ræða sama mál og Umboðsmaður Alþingis setti ofan í við ráðuneytið vegna þess hversu langan tíma meðferð málsins tók en eins og flestir væntanlega vita er um að ræða ráðuneyti Lilju Daggar Alfreðsdóttur.

Skúli lætur ráðuneyti Lilju heyra það – Brjóti lög með seinagangi og svari honum seint og illa

Samkvæmt lögum þarf stjórnsýslukæra að berast innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun hefur verið kynnt viðkomandi aðila en annars verði að vísa henni frá. Umrædd kæra barst ekki fyrr en sjö mánuðum eftir að hún var kynnt aðstandendum kvikmyndarinnar en þar sem fyrir lá að þeim hefði ekki verið leiðbeint um kærufrestinn var kæran tekin fyrir.

Fyrst var sótt um styrk til eftirvinnslu kvikmyndarinnar í janúar 2020. Í mars voru framleiðandi og leikstjóri boðaðir á fund Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Á fundinum kom fram að tveir kvikmyndaráðgjafar sem störfuðu hjá miðstöðinni teldu að kvikmyndin væri ekki nógu vel klippt. Lagt var til við leikstjórann og framleiðandann að draga umsókn um eftirvinnslustyrk til baka, klippa myndina betur og leggja fram nýja umsókn að því loknu. Við því urðu þeir.

Með umsögn annars kvikmyndaráðgjafans til hliðsjónar lögðu aðstandendur kvikmyndarinnar út í kostnað við að klippa hana upp á nýtt og lögðu fram nýja umsókn um eftirvinnslustyrk til Kvikmyndamiðstöðvar sem var synjað í október 2020.

Hafi átt að segja nei strax

Í kæru sinni til menningar – og viðskiptaráðuneytisins sögðu aðstandendur meðal annars að þeir hefðu ekki notið andmælaréttar samkvæmt lögum þegar umsókninni var synjað í október 2020. Vildu þeir einnig meina að Kvikmyndamiðstöð hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni með því að leggja til í mars að fyrri umsóknin yrði dregin til baka og að kvikmyndin yrði klippt betur. Vildu aðstandendurnir meina að þeir hefðu verið betur settir með því að fá synjun strax frekar en þessar ráðleggingar.

Sögðu þeir einnig að Kvikmyndamiðstöð Íslands hafi einnig brugðist leiðbeiningarskyldu sinni með því að upplýsa þá ekki um að fleira hafi þurft að laga en eingöngu klippinguna. Töldu þeir sömuleiðis málsmeðferð Kvikmyndamiðstöðvar og umsögn hennar um kvikmyndina ekki samræmast ákvæðum kvikmyndalaga og reglugerðar um miðstöðina ekki síst þar sem umsögnin hafi ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Einnig hafi reglugerðin verið brotin þar sem synjunin hafi verið send með bréfi framleiðslustjóra en ekki forstöðumanns sem beri að taka endanlega ákvörðun um hvort umsóknir um styrki fá samþykki eða synjun.

Misskilningur

Kvikmyndamiðstöð sagði meðal annars í sinni umsögn um kæruna að aðstandendur kvikmyndarinnar hafi misskilið reglur miðstöðvarinnar og skilyrði fyrir styrkjum til eftirvinnslu. Reglur um eftirvinnslustyrk séu þess efnis að tökum og klippingu eigi að vera lokið og að viðkomandi verk sé nánast fullmótað þegar umsókn um slíkan styrk sé metin.

Miðstöðin sagði fundinn í mars 2020 ekki hafa falið í sér loforð um að styrkurinn yrði veittur þótt myndin yrði betur klippt og hafi aðstandendur kvikmyndarinnar skilið það þannig geti Kvikmyndamiðstöðin ekki borið ábyrgð á því. Það hefði verið í andstöðu við reglurnar og það sé ekki hægt að samþykkja allar umsóknir sem berast um styrki. Breytingar sem gerðar hafi verið á kvikmyndinni hafi ekki verið nægilegar. Umsagnir kvikmyndaráðgjafa hafi heldur ekki verið ómálefnalegar eins og aðstandendur kvikmyndarinnar héldu fram. Miðstöðin hafnaði einnig alfarið þeim fullyrðingum aðstandenda að hafa ekki rökstutt synjunina nægilega vel.

Skilji ekki mikið eftir sig

Í niðurstöðu sinni hafnar menningar- og viðskiptaráðuneytið því að umsögn Kvikmyndamiðstöðvar um kvikmyndina hafi verið ómálefnaleg. Hlutverk hennar samkvæmt lögum og reglum sé að leggja mat á listrænt gildi verka, þegar styrkumsóknir eru lagðar fram, og hvort þau uppfylli kröfur um gæði og listrænt framlag. Í umsögninni komi meðal annars fram að hvorki persónur, frásagnauppbygging, stíll né innihald efnisins skilji mikið eftir sig eða bjóði upp á sterkt kvikmyndaverk. Þá sé kvikmyndin sögð fyrirsjáanleg og yfirborðskennd. Þetta geti ekki talist ómálefnalegt.

Ráðuneytið tekur heldur ekki undir það með aðstandendum kvikmyndarinnar að Kvikmyndamiðstöð hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni með því að ráðleggja þeim að draga fyrri umsóknina til baka, klippa myndina upp á nýtt og sækja aftur um. Aðstandendur hafi fengið umsögn kvikmyndaráðgjafa afhenta sem hafi átt að geta nýst þeim við að klippa myndina aftur en þessi ráðstöfun hafi ekki skapað væntingar um að seinni umsóknin yrði samþykkt.

Ráðuneytið segir hins vegar að Kvikmyndamiðstöð hafi brotið stjórnsýslulög með því að afhenda aðstendendum kvikmyndarinnar hina neikvæðu athugasemd kvikmyndaráðgjafa ekki fyrr en eftir að seinni umsókninni um eftirvinnslustyrk var hafnað. Þar með hafi þeim ekki verið veittur sá andmælaréttur sem lögin kveði á um. Með þessu hafi rannsóknarregla laganna einnig verið brotin. Einnig tekur ráðuneytið undir með aðstandendum kvikmyndarinnar að engin merki séu í synjuninni um að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar hafi tekið hina endanlega ákvörðun um synjun eins og kvikmyndalög kveði á um.

Synjun Kvikmyndamiðstöðvar Íslands á umsókn aðstandenda kvikmyndarinnar um eftirvinnslustyrk var því felld úr gildi en hvort það þýði að umsóknin teljist samþykkt eða að hægt sé að sækja um styrk að nýju er ekki beinlínis tekið fram í úrskurðinum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Í gær

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots
Fréttir
Í gær

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“
Fréttir
Í gær

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt