Japönsk stjórnvöld hafa farið fram á að hvalafriðunarsinninn Paul Watson verði framseldur. Watson er í gæsluvarðhaldi í Grænlandi.
AFP greinir frá því í dag að dómsmálaráðuneyti Danmerkur hafi tilkynnt um framsalsbeiðnina.
„Dómsmálaráðuneytið fékk formlega beiðni frá japönskum yfirvöldum í gær um að Paul Watson verði framseldur,“ segir í fréttinni. Að sögn ráðuneytisins verður beiðninni vísað til grænlensku lögreglunnar nema að ráðuneytið finni ástæðu til þess að hafna beiðninni.
Verði beiðnin send til grænlensku lögreglunnar mun hún rannsaka hvort það sé grundvöllur fyrir framsali, meðal annars út frá þeim reglum sem gilda um framsal frá Grænlandi.
Lokaákvörðunin um hvort að Watson verði framseldur er hjá danska dómsmálaráðherranum Peter Hummelgaard.
Líklegt þykir að málið gæti reynst dönskum stjórnvöldum erfitt. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur beitt sér í málinu og þrýst á dönsk stjórnvöld að sleppa Watson, sem er búsettur í Frakklandi. Einnig tugir franskra þingmanna og Evrópuþingmanna.
Hvalveiðar eru einungis löglegar í þremur ríkjum, Íslandi, Noregi og Japan, og eru afar óvinsælar. Þrátt fyrir að handtaka Watson þann 21. júlí, vegna meintrar árásar á hvalveiðiskip árið 2010, og framsalsbeiðni Japana séu byggð á lögum gæti reynst snúið fyrir Dani að samþykkja hana.