Halla Tómasdóttir, nýr forseti Íslands, verður sett í embætti í dag. Hún verður sjöundi forseti lýðveldisins Íslands og önnur konan sem gegnir embættinu.
Setningarathöfnin fer fram í Dómkirkjunni og í Alþingishúsinu klukkan 15:30 í dag. Almenningur er boðinn velkominn á Austurvöll til að fylgjast með dagskránni og fagna nýjum forseta. Skjáir verða settir upp til að fólk geti fylgst með. Einnig verður sýnt beint frá athöfninni í sjónvarpi.
Dagskráin byrjar með helgistund í Dómkirkjunni sem biskup Íslands og dómkirkjuprestur sjá um. Dómkórinn í Reykjavík syngur ásamt Sigríði Thorlacius einsöngvara og skólakór Kársness.
Þá verður farið yfir í Alþingishúsið þar sem fer fram eiginleg setningarathöfn undir stjórn Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis, en hann er handhafi forsetavalds ásamt Benedikt Bogasyni forseta Hæstaréttar og Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra þar til setningunni er lokið. Sú athöfn hefst á einsöngi. Þá er lýst forsetakjöri og nýr forseti sver drengskaparheit sitt.
Eftir það fer forseti á svalir þinghússins og minnist fósturjarðarinnar og flytur svo ávarp. Að lokum er þjóðsöngurinn sunginn og þá er hinni formlegu athöfn lokið.
Eftir athöfnina verður 110 gestum boðið í nýtt skrifstofuhúsnæði Alþingis, sem kallast Smiðjan. Er það í fyrsta skipti sem það húsnæði er notað.
Halla Tómasdóttir er 55 ára gömul, fædd í Reykjavík þann 11. október árið 1968. Hún er menntuð sem viðskiptafræðingur og nam við ýmsa skóla í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hún hefur meðal annars starfað sem mannauðsstjóri, sett á fót stjórnendaskóla, verið framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, stofnað fjármálafyrirtækið Auði Capital og skipulagt jafnréttisráðstefnuna WE2015.
Hún var ein af stofnendum Mauraþúfunnar sem hrinti af stað Þjóðfundinum árið 2009. En verkefni hans var að taka afstöðu til þess hvernig samfélag Íslendingar vildu byggja upp eftir bankahrunið árið áður.
Halla er gift Birni Skúlasyni, viðskiptafræðingi og heilsukokki. Þau eiga tvö börn, Tómas Bjart og Auði Ínu.
Íslendingar kusu Höllu sem forseta Íslands þann 2. júní síðastliðinn með 34,15 prósentum atkvæða. Hlaut hún nokkuð jafnt fylgi eftir kjördæmum, minnst 30,11 prósent í Norðvesturkjördæmi en mest 37,83 prósent í Suðvesturkjördæmi.
Alls hlaut hún 73.182 atkvæði í kosningunum og afgerandi kosningu. Í öðru sæti var Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, með 25,19 prósent, eða um 9 prósentum minna en Halla.
Halla hafði áður boðið sig fram til forseta, árið 2016. Þá hlaut hún 27,93 prósent og var í öðru sæti á eftir Guðna Th. Jóhannessyni sem vann kosningarnar með 39,08 prósentum.