fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Halla orðin forseti Íslands

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 1. ágúst 2024 17:09

Halla Tómasdóttir forseti Íslands. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halla Tómasdóttir hefur formlega tekið við embætti forseta Íslands eftir að hafa verið sett í embætti við hátíðlega athöfn sem fram fór nú fyrir stundu fyrst í Dómkirkjunni og síðan Alþingishúsinu.

Halla og eiginmaður hennar Björn Skúlason mættu á svæðið við undirleik Lúðarsveitar Reykjavíkur sem lék Ísland ögrum skorið, lag Sigvalda Kaldalóns við ljóð Eggerts Ólafssonar.

Fyrri og trúarlegi hluti athafnarinnar fór fram í Dómkirkjunni þar sem fluttir voru sálmar, trúarleg tónlist og lesið úr bíblíunni. Agnes Sigurðardóttir fór með hugleiðingu frá altarinu sem biskup Íslands þar sem nýi biskupinn Guðrún Karls Helgudóttir hefur ekki verið vígð í embættið. Einnig flutti söngkonan Sigríður Thorlacius ásamt Skólakór Kársness Vikivaka eftir Jóhannes úr Kötlum við lag Valgeirs Guðjónssonar. Agnes bað því næst guð almáttugan meðal annars að blessa Höllu í hennar störfum auk ýmissa annarra hópa sem glíma við mikla erfiðleika og leiddi síðan viðstadda við að fara með faðirvorið. Agnes fór síðan með blessun með aðstoð Dómkórsins sem söng að því loknu Ísland ögrum skorið.

Halla og aðrir viðstaddir, meðal annars handhafar forsetavalds gengu því næst yfir í Alþingishúsið. Fremst gengu Halla og Birgir Ármannson forseti Alþingis og fólk á Austurvelli klappaði fyrir Höllu þegar hún gekk framhjá. Þegar Halla kom inn í Alþingishúsið var fyrstur til að gefa henni létt knús Guðni Th. Jóhannesson sem lauk sinni embættistíð sem forseti Íslands á miðnætti í nótt.

Vigdís ekki í kirkjunni

Í Alþingishúsinu voru viðstödd meðal annars ríkisstjórnin, nokkrir fyrrverandi forsætisráðherrar og allir núlifandi fyrrverandi forsetar Íslands en ein þeirra Vigdís Finnbogadóttir beið þar eftir kirkjugestum.

Fyrst söng Sigríður Thorlacius, við undirleik Tómasar Jónssonar og Ómars Guðjónssonar, lagið Vetrarsól lag Gunnar Þórðarsonar við texta Ólafs Hauks Símonarsonar en Halla valdi sjálf hvaða lag yrði flutt við þetta tækifæri.

Kristín Edwald formaður landskjörstjórnar lýsti kjöri forseta Íslands og setti Höllu formlega í embættið. Það gerði hún með þeim orðum að Halla væri löglega kjörin forseti Íslands fram til 31. júlí 2028 en áður var það forseti Hæstaréttar sem sá um þetta verkefni, en því var breytt með lögum árið 2021 eftir að Hæstiréttur sagði það ekki samræmast hlutverki réttarins að forseti hans sæi um þetta.

Halla undirritaði því næst áskilið drengskaparheit að stjórnarskránni þar sem hún heitir því að halda stjórnarskrá Íslands í heiðri.

Birgir Ármannsson forseti Alþingis óskaði því næst Höllu gæfu og velfarnaðar í störfum sínum og tók Halla í hönd hans og annarra handhafa forsetavalds.

Halla og Björn Skúlason maður hennar stigu því næst út á svalir Alþnigishússins þar sem nokkur mannfjöldi á Austurvelli klappaði fyrir þeim og leiddi Halla fjöldann í ferföldu húrrahrópi fyrir Íslandi. Lúðrasveit Reykjavíkur flutti að því loknu Land míns föður, lag Þórarins Guðmundssonar við ljóð Jóhannesar úr Kötlum.

Þakklát fyrir að vera Íslendingur

Þá sté Halla aftur inn í Alþingishúsið og flutti sitt fyrsta ávarp sem forseti Íslands. Hún hóf það á því að segjast vera full af þakklæti fyrir það traust sem henni og Birni manni hennar hefði verið sýnt. Þakklát er hún einnig foreldrum sínum og kjarkmiklum konum sem sýdu henni ungri að aldri að með hugrekki og samtakamætti sé hægt að hreyfa við samfélaginu.

„Ég er þakklát fyrir að hafa fæðst hér á landi, fyrir að fá að vera Íslendingur sem er í dag öfundsvert.“

Hún þakkaði gengnum kynslóðum Íslendinga fyrir að halda landinu í byggð með seiglu sinni og að skapa einstakan menningararf.

Sömuleiðis þakkaði Halla forverum sínum:

„Mér er ljós sú mikla ábyrgð sem ég tekst á hendur og mun leggja mig alla fram um að vinna landi og þjóð það gagn sem ég má. Ég veit að ég byggi á traustum grunni þeirra sem á undan fóru og minnist með virðingu Sveins Björnssonar, Ásgeirs Ásgeirssonar og Kristjáns Eldjárns. Þá er heiður að mega persónulega þakka Vigdísi Finnbogadóttur, Ólafi Ragnari Grímssyni og Guðna Th. Jóhannessyni fyrir þeirra forsetatíð og framlag í þágu þjóðarinnar.“

Halla sagði aðstæður þjóðarinnar gjörbreyttar síðan lýðveldið var stofnað fyrir 80 árum:

„Við, sem vorum ein fátækasta þjóð Norður Evrópu erum nú meðal ríkustu þjóða heims. Það hefur orðið umbylting á einungis áttatíu árum.“

Framtíð, traust og andleg heilsa

Eftir að hafa horft til fortíðar horfði Halla til framtíðar. Hún sagði mannréttindi eiga undir högg að sækja víða um heim:

„Fólki hættir til að skipa sér í skotgrafir – í andstæðar fylkingar. Svo læst er það sumt í afstöðu sinni að það heyrir ekki hvert í öðru.Einn alvarlegasti fylgifiskur þess er að traustið, mikilvægasti grunnur mannlegs samfélags, fer þverrandi.“

Skortur á trausti sé farinn að ágerast og það valdi sinnuleysi og ekki bæti tækniþróun með auknum möguleikum á fölsunum þar úr. Höllu var einnig tíðrætt um andlega vanlíðan:

„Því miður fer einmanaleiki vaxandi hjá ungum sem eldri. Margir dvelja lengur í rafheimum en raunheimum. Kvíði, þunglyndi, neysla og sjálfsskaði hafa aukist stórlega á skömmum tíma. Hvernig má það vera að ein hamingjusamasta þjóð í heimi skipi sér jafnframt í fremstu röð hvað þessa ískyggilegu þróun varðar?“

Halla sagði íslenskt samfélag einfaldlega verða að bæta andlega og samfélagslega heilsu og þar vonast hún til að geta lagt sitt af mörkum. Hún vilji ekki síst beita sér fyrir því að kalla ólíka hópa saman til að greina og bæta úr þessum vanda og þar eigi unga kyynslóðin að fá sinn sess:

„Höfum við hugrekki til að fara nýjar leiðir? Getum við, íslenskt samfélag, valið mýktina, talað saman, unnið saman þvert á kynslóðir og ólíkar skoðanir og stillt kompásinn þannig að við villumst síður af leið? Valið samstöðu fremur en sundrungu?“

Halla sagðist sannfærð um að Íslendingar hafi mikilvægu hlutverki að gegna í heimi í vanda. Hún hvatti fólk til að sýna þann kjark sem þurfi til að hlusta á aðra og skilja ólík sjónarmið:

„Höfum við kjarkinn sem þarf til að velja mennsku og frið í eigin ranni og mynda þannig jarðveg fyrir samfélag þar sem flestum er fært að blómstra á sínum forsendum? Ég vil að við stefnum þangað. Virkjum getu okkar til að skapa slíkt samfélag, saman, fyrir og með næstu kynslóð. Ég veit að við getum það.“

Athöfninni í Alþingishúsinu lauk síðan með þjóðsöngnum – Lofsöngur –  en raunar var ljóðið flutt í heild sinni en yfirleitt er aðeins fyrsta erindi af þremur flutt.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum