fbpx
Mánudagur 04.nóvember 2024
Fréttir

Öldruð kona þarf að borga fyrir sorphirðu og rotþróartæmingu á heimili systur sinnar

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 31. júlí 2024 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að konu nokkurri, sem er orðin öldruð og býr á hjúkrunarheimili, beri að sjá um að greiða sorphirðugjald og gjald fyrir tæmingu rotþróa á jarðeigninni Úlfsstöðum í Borgarbyggð. Konan sem er einn af eigendum Úlfsstaða hafði kært þessa gjaldtöku Borgarbyggðar gagnvart henni til innviðaráðuneytisins þar sem hún býr ekki á jörðinni heldur systir hennar.

Konan kærði einnig álagningu fasteignagjalda vegna Úlfsstaða og gjalda vegna söfnunar og eyðingar dýraleifa. Ráðuneytið framsendi þann hluta kærunnar sem varðar sorphirðugjald og gjaldið fyrir tæmingu rotþróanna til nefndarinnar.

Um málavexti segir í úrskurðinum að konan sé ein fjögurra erfingja að Úlfsstöðum  ásamt tilheyrandi fasteignum. Samkomulag hafi verið um að þrír þeirra sem höfðu tengsl við jörðina myndu skipta með sér greiðslu fasteignagjalda vegna jarðarinnar og greiða þriðjung hver. Fjórði erfinginn var látinn og samkvæmt samkomulaginu voru erfingjar hans ekki greiðsluskyldir. Árið 2014 hafi orðið breyting á eignarhaldi eins erfingjans og við það breytingar á innheimtu gjalda hjá Borgarbyggð á þann hátt að konunni var gert að greiða að fullu öll fasteignagjöld vegna jarðarinnar. Jafnframt hafi konan síðan þá verið krafin um og greitt gjöld vegna sorphirðu og tæmingu rotþróar íbúðahússins á Úlfsstöðum, sem systir konunnar býr í, auk rotþróar sumarbústaðar sem konan á jörðinni.

Hafi allt legið fyrir þótt konan sé öldruð

Konan fór fram á endurgreiðslu oftekinna fasteignagjalda auk gjaldanna fyrir sorphirðu, tæmingu rotþróar og söfnun og eyðingu dýraleifa. Borgarbyggð féllst á að síðastnefnda gjaldið hefði verið ranglega lagt á konuna og lækkaði fasteignagjöldin á móti og skipti frá og með síðasta ári greiðslu fasteignagjaldanna milli konunnar hinna tveggja erfingja jarðarinnar sem enn lifa. Öllum öðrum kröfum konunnar var hafnað.

Segir í úrskurðinum um konuna að hún sé öldruð og búi vegna heilsubrests á hjúkrunarheimili. Hún hafi þess vegna ekki borið skynbragð á hversu mikið hún var að greiða þ.e.a.s. öll fasteignagjöld auk allra hinna gjaldanna. Konan hafi ekki gert sér grein fyrir að fjórföldun hafi orðið á þeim gjöldum, milli áranna 2014 og 2015, sem hún greiddi vegna jarðarinnar fyrr en aðstandandi hennar fór yfir greiðsluseðla um áratug síðar.

Borgarbyggð sagði allar upplýsingar hafa komið fram á greiðsluseðlum fasteignagjalda um eigendur jarðarinnar og greiðslur gjaldanna. Ekki séu allir eigendurnir jafn aldraðir og konan og því hefði hinum eigendunum, sem hafi fengið þessar upplýsingar sendar, að vera kunnugt um að konan greiddi öll gjöldin.

Sorphirða og rotþró samkvæmt lögum

Hvað varðar þann hluta kæru konunnar að Borgarbyggð hafi rukkað hana um sorphirðugjald og gjald fyrir tæmingu rotþróa þó hún búi ekki á jörðinni vísaði sveitarfélagið til laga og samþykktar um fráveitur og rotþær.

Borgarbyggð segir að samþykktin kveði á um að gjald fyrir tæmingu rotþróa sé lagt á árlega þótt að þær séu tæmdar á þriggja ára fresti. Konan eigi sumarhús á jörðinni og þar sé rotþró. Hafi hún síðast verið tæmd í október 2021 og sama eigi við um rotþró við íbúðarhúsið að Úlfsstöðum.

Hvað varðar sorphirðugjaldið vísaði Borgarbyggð til laga um meðhöndlun úrgangs og samþykktar sveitarfélagsins um sama efni. Sagði sveitarfélagið að samkvæmt því væri innheimt gjald fyrir bæði þrjár sorptunnur á Úlfsstöðum og rekstur grenndar- og móttökustöðvar þar sem fólk væri með lögheimili á jörðinni.

Tóku bara fyrir eitt ár

Kæru konunnar vegna innheimtu gjaldanna fyrir sorphirðu og tæmingu rotþróa fyrir árin 2015-2022 var vísað frá nefndinni þar sem meira en ár hafi liðið síðan álagning fyrir hvert þessara ára var tilkynnt konunni.

Aðeins tók nefndin því fyrir gjaldtökuna vegna ársins 2023. Var því hafnað að fella gjöldin niður þar sem þau eigi sér stoð í lögum og samþykktum Borgarbyggðar. Sagði nefndin að í lögum um sorphirðu komi skýrt fram að sveitarfélögum beri skylda til að hirða sorp og innheimta gjald fyrir og sú þjónusta megi ekki falla niður þótt að sumir íbúar kjósi að nýta sér hana ekki.

Vísar nefndin einnig til úrskurðar innviðaráðuneytisins frá 5. júní á þessu ári sem ekki hefur verið birtur á vef Stjórnarráðsins. Segir nefndin að í þeim úrskurði hafi konunni verið bent á hina almennu reglu eignaréttar, að hafi með löglegum hætti verið stofnað til skuld­bindinga vegna sameignar gagnvart þriðja manni, sé ábyrgð sameigenda gagnvart honum óskipt.

Þar af leiðandi var kröfu konunnar, um að henni yrði ekki gert að greiða sorphirðugjald og gjald fyrir tæmingu rotþróa á Úlfsstöðum þótt hún búi þar ekki og sé ekki eini eigandinn, hafnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri