fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Síbrotamaður braust inn í fjölbýlishús um miðja nótt – Sagðist bara vera að hlýja sér

Ritstjórn DV
Mánudaginn 29. júlí 2024 14:30

Mynd: Eyþór Árnason. Myndin tengist fréttinni ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð  Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem handtekinn var vegna innbrots í íbúð og geymslu í fjölbýlishúsi fyrr í þessum mánuði. Lögreglan fór ekki síst fram á gæsluvarðhald yfir manninum þar sem hann hafði komið við sögu lögreglu í 20 málum frá miðjum maí síðastliðnum. Maðurinn á sér þó lengri brotasögu og hefur áður verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna síbrota og því líklega réttnefni að lýsa honum sem síbrotamanni.

Ekki kemur fram í úrskurði Héraðsdóms hvar fjölbýlishúsið er en líklegt verður að teljast að það sé að minnsta kosti í Reykjavík. Tilkynnt var um innbrotið um klukkan 03:30 að nóttu til um miðjan þennan mánuð. Veitti aðilinn sem tilkynnti um innbrotið manninum eftirför og sagði tilkynnandinn lögreglu að maðurinn hefði brotið sér leið inn í fjölbýlið í gegnum tvær hurðir. Fannst meðal annars nærri vettvangi bakpoki með hljómborði sem hafði verið geymt í einni geymslu í fjölbýlishúsinu en skemmdir höfðu verið unnar á hurðum að geymslum í fjölbýlishúsinu.

Lögreglan handtók manninn nærri vettvangi fimm mínútum eftir að tilkynning um innbrotið í íbúðina barst. Sagðist maðurinn aðeins hafa brotist inn í stigagang fjölbýlishússins til að hlýja sér en að annar aðili hefði brotist inn í íbúðina. Þegar nafni mannsins var flett upp í kerfi lögreglu kom hins vegar strax í ljós að um síbrotamann var að ræða.

Ítrekað gæsluvarðhald

Í mars á síðasta ári var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að 20 sakamálum en hann hafði lokið síðast afplánun í desember 2022. Var gæsluvarðhaldið síðan ítrekað framlengt og fyrir ári var maðurinn dæmdur í 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi vegna fjölda brota en ekki kemur fram hvort hann var dæmdur vegna allra 20 brotanna sem hann var grunaður um aðild að. Var maðurinn úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald á meðan áfrýjunarfresti stóð og síðan á ný á meðan málið var til meðferðar hjá Landsrétti, sem enn hefur ekki úrskurðað um áfrýjun mannsins. Landsréttur staðfesti úrskurð um áframhaldandi gæsluvarðhald sem gilti til loka janúar á þessu ári en þá var maðurinn úrskurðaður af bæði héraðsdómi og síðan Landsrétti til að sæta vistun á viðeigandi stofnun.

Í úrskurðinum segir að vistun mannsins á stofnuninni virðist hafa lokið í mars á þessu ári. Hann sé grunaður um aðild að alls 2o brotamálum frá miðjum maí og þar til hann var handtekinn eftir innbrotið í fjölbýlishúsið fyrr í þessum mánuði.

Því er um að ræða að minnsta kosti samtals 40 refsimál sem maðurinn hefur tengst á þessu og síðasta ári.

Felast brotin sem maðurinn er grunaður um að hafa framið á þessu ári einkum í innbrotum og þjófnuðum en einnig fíkniefnalagabrotum, eignaspjöllum, húsbrotum og í einu tilfelli broti á vopnalögum og í einu öðru tilfelli fjársvikum.

Náðist alltaf

Fram kemur í úrskurðinum að í hvert þessara tuttugu skipta hafi maðurinn ýmist verið handtekinn eða lögregla haft upp á honum, vegna rökstudds gruns um að hann tengdist viðkomandi máli, og tekið af honum skýrslu. Misjafnt var hvort maðurinn neitaði eða játaði sök í hvert skipti. Átta brotanna sem maðurinn er grunaður um aðild að voru framin á tveimur dögum.

Fram kemur í úrskurðinum að maðurinn  hafi bæði brotist inn á heimili og í fyrirtæki eða stofnanir. Í eitt skiptið komu vitni að manninum róta í skúffum á spítala en sjá mátti skýr merki um innbrot í gegnum glugga á spítalanum og öryggiskerfi hafði gefið viðvörun um innbrot. Þegar lögregla kom á vettvang var maðurinn í sófa á spítalanum og á honum fundust hnífur, fíkniefni og sími. Sagðist maðurinn hafa þurft að brjótast inn á spítalann til að fá lyfin sín og hafi talið sig eiga símann.

Fyrri hluta júní var maðurinn vistaður á réttargeðdeild samkvæmt ákvörðun geðlæknis meðal annars á þeim grundvelli að hann hafi verið með ranghygmyndir og skert innsæi. Þar fékk hann sprautu með geðlyfi áður en honum var hleypt aftur út af deildinni. Vakthafandi geðlæknir tjáði lögreglu þegar maðurinn var handtekinn vegna innbrotsins í fjölbýlishúsið, fyrr í þessum mánuði, að ekki væri þörf á því að vista manninn á geðdeild vegna málsins.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem Landsréttur staðfesti er tekið undir með lögreglu að rökstuddur grunur sé um aðild mannsins að málunum 20 sem upp hafa komið á þessu ári og að hann muni halda brotum sínum áfram gangi hann laus. Maðurinn var því úrskurðaður í gæsluvarðhald fram til 8. ágúst næstkomandi.

Úrskurð Landsréttar í heild sinni er hægt að nálgast hér.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum ákærður – Sökuð um að stela úr lyfjaskápnum

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum ákærður – Sökuð um að stela úr lyfjaskápnum
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Stakk lögregluna af en gómaður í kannabisskýi sama dag – „You guys are slow“

Stakk lögregluna af en gómaður í kannabisskýi sama dag – „You guys are slow“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Í gær

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti
Fréttir
Í gær

Öfgahægrið styrkist í Rússlandi

Öfgahægrið styrkist í Rússlandi