Í frétt BBC kemur fram að skemmdir hafi verið unnar á hraðlestarkerfinu vestur, norður og austur af París og hafa langar raðir myndast á Gare Montparnaesse-lestarstöðinni í París.
Búið er að aflýsa mörgum ferðum og er útlit fyrir að kerfið komist ekki í samt lag fyrr en um eða eftir helgi. Eldur var til dæmis borinn að stjórnstöðvum fyrir lestarkerfið.
Patrice Vergriete, samgönguráðherra Frakklands, fordæmdi skemmdarverkin á samfélagsmiðlum í morgun og sagði ljóst að tilgangurinn hafi aðeins verið einn, að lama lestarkerfið. Hrósaði hann starfsmönnum SNCF sem hann sagði leggja mikið á sig til að koma kerfinu aftur í lag.
Í frétt BBC kemur fram að enginn hafi lýst ábyrgð á skemmdarverkunum en erfitt sé að líta fram hjá tengingu við opnunarhátíð Ólympíuleikanna sem er fram undan í dag. Bæði séu margir á leið til Parísar til að sjá opnunarhátíðina og þá séu margir íbúar Parísar á leið út úr borginni á leið í sumarfrí.