Eyjan Drake´s Island við strendur Devon héraðs í suðvestur hluta Bretlands er til sölu. Þar er leyfi til að byggja hótel og rammgert hervirki sem varði eyjuna um aldir. Það er þó reimt á eyjunni.
Breska sjónvarpsstöðin Sky News greinir frá þessu.
Eyjan er aðeins tveir og hálfur hektari að stærð og liggur fyrir utan borgina Plymouth. Leyfi til að byggja lúxushótel á eyjunni fylgir með í sölunni. Sem og mörg hundruð ára fallbyssur og önnur hernaðarmannvirki. Stórskotaliðsbyssur, byssupúðursgeymslur og vitaskuld vistarverur hermanna sem vörðu eyjuna.
Eyjan er nefnd eftir landkönnuðinum Francis Drake, sem hóf för sína í kringum hnöttinn í henni árið 1577.
„Hérna er meira en 2000 ára saga. Fyrsta byggingin er frá 1135,“ segir eigandinn Morgan Philips sem keypti eyjuna árið 2019 á 6 milljón pund. Hann fékk réttinn að hótelbyggingu en hún mun kosta um 25 milljónir punda, það er að breyta mannvirkjunum sem eru á eyjunni í hótel.
Vandamálið er hins vegar að það er reimt á eyjunni. Alls fimmtán draugar sem vilja ekki fara í burtu.
„Ef þú trúir miðlunum sem koma hingað. Þetta eru allt óbreyttir breskir hermenn,“ segir Philips. „En þeir eru hér til að verja okkur. Það er það sem þeir gerðu á meðan þeir voru á lífi og það gera þeir enn þá. Ég hef séð ýmislegt hérna sem ég get ekki útskýrt. En það er allt saman af hinu góða.“