fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fréttir

Húseigandi í miðbænum grunlaus um heimild fyrir byggingu íbúðarhúss á lóð hans – Reyndi að kæra en var of seinn

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 25. júlí 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eigandi íbúðahúsalóðar í Reykjavík kærði til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar um breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits. Breytingin hafði í för með sér að heimild var veitt fyrir að byggja íbúðarhús á baklóð húss hans í stað bílageymslu á baklóðinni.

Kærandi er eigandi eins af þremur eignarhlutum í  lóðinni Njálsgötu 38 sem er innan deiliskipulags Njálsgötureits. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 4. október 2023 var samþykkt breyting á deiliskipulaginu að undangenginni grenndarkynningu. Með deiliskipulagsbreytingunni sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2023 er heimilað að núverandi bílageymsla á baklóð Njálsgötu 38 verði rifin og í hennar stað byggt íbúðarhús með íbúð á einni og hálfri hæð með þakverönd sem snýr að öskustíg, sem liggur milli baklóða húsa við Njálsgötu og Bergþórugötu, milli Vitastígs og Frakkastígs.

Fékk vitneskju um ákvörðunina fyrir tilviljun

Kærandi vísaði til þess að breytingartillagan hafi aldrei verið grenndarkynnt fyrir honum auk þess sem honum hafi aldrei borist tilkynning um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs að samþykkja deiliskipulagsbreytinguna. 

Sagðist hann hafa fengið fyrst vitneskju um ákvörðunina í júní 2024 fyrir tilviljun. 

Í aðdraganda deiliskipulagsbreytingarinnar hafi eigendur bílageymslunnar sem deiliskipulagsbreytingin taki til verið í samskiptum við hann um ákjósanlega útfærslu á breytingu bílageymslunnar í íbúðarhús. 

Telur breytinguna rýra eigin eign

Kærandi sagði að þurft hefði samþykki hans sem meðlóðarhafa fyrir breytingunni, eins og fram kom í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember 2022. Samþykki hans hafi ekki verið aflað. Umrædd breyting leiði til þess að eign kæranda komi til með að rýrna, svo sem vegna skerðingar á eignarhluta hans í lóð, aukins skuggavarps og ónæðis.

Húseigandinn telur að breytingin muni rýra virði sinnar eignar.

Kærði sex mánuðum of seint

Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar samkvæmt stjórnsýslulögum.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var birt í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2023 og mátti kæranda vera kunnugt um hana frá þeim tíma. Kærufresti vegna umræddrar ákvörðunar lauk þannig 22. janúar 2024 en kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni ekki fyrr en 18. júlí eða tæpum sex mánuðum eftir lok kærufrests.

Í úrskurðinum kemur fram að það að kæra berist eftir kærufrest valdi því ekki sjálfkrafa að kæru sé vísað frá nefndinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir að taka skuli kæru fyrir ef afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Meðal annars þurfi þá að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, eins og raunin er í máli þessu. Sé svo, sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Nefndin taldi þó að í þessu máli væri drátturinn á kæru hvorki afsakanlegur eða að fyrir lægju veigamiklar ástæður sem mæltu með því að kæran yrði tekin til efnismeðferðar. Var kærunni því vísað frá.

Í lokin taldi nefndin rétt að benda á að deiliskipulag eða breytingar á því hafa ekki í för með sér ráðstöfun á beinum eða óbeinum eignaréttindum og almennt þarf að liggja fyrir samþykki lóðarhafa lóðar í óskiptri sameign svo byggingarleyfi fyrir mannvirkjum á henni fáist samþykkt, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Balotelli strax á förum
Fréttir
Í gær

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“
Fréttir
Í gær

Hleypti óvart af hólknum í miðju hlaðvarpsviðtali – „Hver skaut hvern?“

Hleypti óvart af hólknum í miðju hlaðvarpsviðtali – „Hver skaut hvern?“
Fréttir
Í gær

Áslaug Arna býður sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum

Áslaug Arna býður sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Í gær

Jón segir að tæknin hafi bjargað sér – „Ætli erfiðast í þessu öllu hafi samt ekki verið skömmin?“

Jón segir að tæknin hafi bjargað sér – „Ætli erfiðast í þessu öllu hafi samt ekki verið skömmin?“