Ný rannsókn sýnir að gríðarlega mikið magn af kókaíni mælist í sjónum og ám heimsins. Ísland er á meðal menguðustu svæðanna. Hákarlar drekka í sig efnin og þau skemma í þeim lifrina.
Reykjavík er í 17. sæti af 108 stöðum sem gerð var mæling á. Styrkleiki kókaíns í sjónum út fyrir Reykjavík mældist rúmlega 550 milligrömm á hverja þúsund íbúa á hverjum degi. Þetta er langmesti styrkleikinn sem mældist á Norðurlöndum. The Daily Mail greinir frá þessu.
Þetta er þó allnokkuð frá þeim stöðum þar sem styrkleiki kókaíns mældist mestur. Það er Antwerp Zuid í Belgíu og Tarragona á Spáni. Þar var styrkleikinn yfir 1500 milligrömm á hverja þúsund íbúa.
Það voru vísindamenn á vegum EUDA, lyfjastofnun Evrópusambandsins, sem söfnuðu gögnunum. En þeim var ekki aðeins safnað í Evrópu heldur í Suður og Norður Ameríku, Asíu og Eyjaálfu einnig.
Erfitt er að mæla notkun kókaíns út frá könnunum þar sem fólk er gjarnan ekki heiðarlegt í svörum sínum. Því er besta leiðin til að komast að hinu sanna að mæla styrkleika efnisins í frárennslisvatni, því líkaminn getur ekki að fullu innbyrt efnið. Skolphreinsistöðvar eiga að sigta út efni eins og kókaín til að það komist ekki út í sjóinn en þær virka mjög illa.
Vísindamenn hafa nú áhyggjur af því að magn kókaíns í frárennslisvatni sé farið að menga hafið svo mikið að það hafi áhrif á lífverur. Einkum hákarla, rándýr sem drekka í sig úrgangs og eiturefni úr öllum dýrum sem þeir éta.
Þegar er farið að bera á því að hákarlar séu að súpa seyðið af kókaínnotkun manna, það er í Brasilíu þar sem sjón þeirra hefur versnað, sem og veiðigetan. Kókaínið sest í bæði lifrina á hákörlunum og vöðvana. Meðalævilengd hákarla við strendur Brasilíu hefur lækkað vegna mikillar kókaínnotkunar í Rio de Janeiro og fleiri borgum.
Kókaín í frárennsli hefur einnig áhrif á aðrar lífverur. Meðal annars ála sem synda í Thames fljótinu í London. Ofvirkni í hegðun þeirra hefur sést eftir að kókaín hefur safnast fyrir í heilanum á þeim, vöðvum, tálknum og fleiri vefjum.
Ýmsar athyglisverðar sveiflur sjást í gögnunum, meðal annars um notkun kókaíns eftir dögum. Í París hækkar styrkleikinn mikið á fimmtudögum og er hár fram á mánudagsmorgun.
Í Brussel aftur á móti er notkunin mun meiri í miðri viku en lækkar um helgar. Hugsanlega vegna þess að fleira fólk er í borginni í miðri viku, í vinnu hjá alþjóðastofnunum á borð við Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu.