Íslendingurinn sem fannst látinn á hótelherbergi á miðvikudag hét Guðmundur Kristinn Ásgrímsson. Hann var 54 ára gamall. Greint er frá nafni mannsins á vefmiðlinum ViralPress.
DV greindi frá því á miðvikudag að maður á sextugsaldri hefði fundist látinn á hótelherbergi í Samut Prakan, sunnan við höfuðborgina Bangkok í Tælandi. Hafði hann dvalið í um mánuð á hótelinu en pantaði ávallt og borgaði fyrir einn dag í einu.
Þegar hann kom ekki niður í afgreiðslu á sínum venjulega tíma varð starfsfólkið áhyggjufullt og ákveðið var að opna herbergið og aðgæta með hann. Þá fannst hann látinn á gólfinu við hliðina á rúminu og talið var að hann hafi verið látinn í um 6 til 12 klukkutíma.
Tælenskir miðlar hafa fjallað ítarlega um málið og þar í landi var málið sagt dularfullt. Engin ummerki um átök voru í herberginu en í því voru flöskur af áfengi. Lögreglan hefur lýst því yfir að hún telji hugsanlegt að áfengisofneysla gæti hafa valdið dauðsfallinu eða þá aðrir heilbrigðistengdir þættir. Enn þá er beðið krufningar.