fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Solaris fordæma ummæli Helga

Ritstjórn DV
Laugardaginn 20. júlí 2024 17:33

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórn hjálparsamtakanna Solaris fordæmir ummæl Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara um samtökin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum en tilefni hennar eru fréttir DV og Vísir upp úr FB-færslu Helga.

Sjá einnig: Helgi vísar ásökunum um rasisma á bug og sakar Odd um atvinnuróg og dylgjur – „Þetta er lygi“

Forsaga málsins er sú að Sýrlendingurinn Mohamad Kourani var á dögunum dæmdur í átta ára fangelsi. Helgi Magnús hafði nokkru áður stigið fram og greint frá því að Kourani hefði um árabil hrellt hann og fjölskyldu hans með hótunum um að drepa þau og beita þau ýmiskonar ofbeldi. Í ljósi niðurstöðunnar hafði blaðamaður Vísis samband við Helgi Magnús og leitaði álits hans á dómnum. Kvaðst vararíkissaksóknarinn ánægður með niðurstöðuna og tjáði sig svo almennt um stöðu mála í innflytjendamálum svo gustaði af.

Oddi var ofboðið vegna málflutnings embættismannsins og sagði orð hans ala á sundrung og fordómum. Þá gerði hann athugasemdir við að maður í stöðu Helga Magnúsar tjáði sig með slíkum hætti og sagði það hafa áhrif á trúverðugleika hans í starfi.

„Það er bara þannig að við get­um ekki verið með emb­ætt­is­menn sem dreg­ur fólk í dilka eft­ir því hvernig það er á lit­inn,“ sagði Odd­ur meðal annars.

Helgi var allt annað en ánægður með ummæli Odds og vísaði ásökunum um rasisma á bug. Helgi skrifar:

„Þessi lögmaður Oddur Ástráðsson fer mikinn í viðtali við fjölmiðla vegna ummæla sem höfð eru eftir mér í stuttu viðtali við blaðamann á visi.is. Ég ætla ekki að eyða orðum í framsetningu „fréttarinnar“ en hún átti að vera um viðbrögð mín við fangelsisdómi yfir Kourani sem hefur haft í hótum um að drepa mig og börnin mín síðust 4 ár.

Að halda því fram eins og þessi lögmaður gerir að kona frá múslímaríki sem vilji kæra nauðgun geti ekki treyst því að hún fái lög boðna meðferð sinna mála hjá ákæruvaldinu vegna afstöðu minnar er ekkert minna en dylgjur og atvinnurógur.

Þessi lögmaður, sem mun vera sonur Svandísar Svafarsdóttur ráðherra VG, virðist kippa í kynið varðandi afstöðu til innflytjendamála og mun, samkvæmt því sem mér er sagt, hafa afkomu sína að nokkru eða öllu undir vinnu fyrir eða í kring um innflytjendamál þar á meðal í þágu Solaris sem berst hörðum höndum fyrir nær óheftum aðgangi fólks frá miðausturlöndum að Íslandi, að því er virðist án þess að láta sig varða bakgrunn þess fólks og hugsanleg tengsl við öfga- og hryðjuverkasamtök. Kippir honum því nokkuð í kynið þegar kemur að viðhorfum til innflytjendamála. Ef hann er að leita að vanhæfni þá er hann að fara yfir lækin eftir vatninu.

Þessi lögmaður heldur því fram að ég hafi sýnt af mér hatursorðræðu með því að benda á þekktar staðreyndir sem allir þekkja, sem fylgjast með opinberri umræðu, eða þekkja vegna tengsla við fólk sem hefur lent í einhverju misjöfnu. Það virðist ekki skipta lögmanninn máli að ég minnist ekki á neinn tiltekinn hóp fólks, hvorki út frá kynþætti, litarhafti, trúarbrögðum né landsvæðum. Ég vísa einfaldlega til þess sem allir vita að við erum að upplifa árekstra mismunandi menningarheima sem hafa mismunandi viðhorf til laga og mannréttinda. Lesið fréttir! Telur einhver að það séu alsstaðar sömu viðhorf til jafnréttis kynjanna, trúfrelsis, og réttinda samkynhneigðra, og eru höfð í hávegum víðast hvar í evrópu?

Ég vísa til leigubílstjóra af erlendum uppruna og því sem innkomu þeirra hefur fylgt. Þarf eitthvað að fjölyrða um það? Þá hef ég upplýst að í mínum 26 árum sem ákærandi hef ég aldrei upplifað svona framkomu eins og af hendi þessa Kourani og í raun bara kurteisi frá fólki sem ég hef þurft að hafa afskipti af í starfi. Þannig að já þetta er nýnæmi. Höfum í huga að þessi maður er sakhæfur, hann er ekki geðsjúkur, bara siðblindur og eitthvað fleira.

Ef það er einhver sem hefur komið óorði á Sýrlendinga hér er það Kourani sjálfur og þar átti ég engan þátt að máli og ekkert í þessu stutta viðtali styður þetta. Ég vil líka taka fram að ég minntist ekki á þjóðerni Kourani en um hann hefur verið fjallað í fjölda greina á liðnum vikum. Reyndar bendi ég á að það sé fullt af góðu fólki í þessum hópi þannig að það er ekki verið að alhæfu um neitt.

Það er nokkuð athyglisvert að þessir sleggjudómar þessa lögmanns, sem augljóslega er að sleikja höndina sem fæðir hann eins og gengur meðal hans líka, líta algerlega fram hjá tilefni þessa viðtals sem eru víðtæk ofbeldisverk þessa Kourani. Það virðist ekki vera að lögmaðurinn hafi mikla samúð með löndum sínum og þar á meðal innflytjendum, sem hafa þurft að þola hann. Slíkt er kannski bara sjálfsagður fylgifiskur þess að hann þurfi að afla fjár.

Ég held að við sem þjóð þurfum að fara að svara svona fólki sem í hvert sinn sem einhver er ósammála þeim grípa til gífuryrða um hatursorðræðu eða kynþáttahatur í því skyni að þagga niður umræðu sem er ekki í samræmi við þeirra hagsmuni. Flokkur móður hans VG reyndi í þessu skyni að koma á heilum lagabálki á síðasta þingi um hvað megi segja og hvað ekki byggt á þeirra eigin pólitísku mælikvörðum.

Fásinna sem George Orwell ritaði um bók sinni 1984 fyrir margt löngu og enginn trúði að gæti orðið raunveruleiki. Segir það meira en flest orð um frændgarð og bakgrunn þessa lögmanns.“

Segja vararíkissaksóknara tengja Solaris við öfgasamtök

Í tilkynningu sinni gera Solaris alvarlegar athugasemdir við ummæli Helga um samtökin. Segja þau Helga tengja samtökin við öfga- og hryðjuverkasamtök og að fólk sem hingað komi í leit að vernd sé almennt með tengsl við slík samtök. Vísa þau slíkum málflutningi á bug. „Einstaklingur sem starfar hjá æðsta handhafa ákæruvalds á Íslandi getur einfaldlega ekki leyft sér að dreifa rógburði um einstaklinga og hjálparsamtök og ljúga upp á þau tengslum við öfga- og hryðjuverkasamtök,“ segir í tilkynningunni en hún er eftifarandi:

„Stjórn Solaris fordæmir ummæli vararíkissaksóknara um samtökin og skjólstæðinga þeirra

Í frétt á Vísi.is þann 20. júlí 2024 og á DV.is þann 19. júlí 2024 er vísað til lokaðrar færslu sem Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, skrifar á Facebook síðu sinni. Í færslunni sem fjölmiðlar fjalla um fer Helgi Magnús um víðan völl, og segir á einum stað:

„Þessi lögmaður, sem mun vera sonur Svandísar Svavarsdóttur ráðherra VG, virðist kippa í kynið varðandi afstöðu til innflytjendamála og mun, samkvæmt því sem mér er sagt, hafa afkomu sína að nokkru eða öllu undir vinnu fyrir eða í kring um innflytjendamál þar á meðal í þágu Solaris sem berst hörðum höndum fyrir nær óheftum aðgangi fólks frá miðausturlöndum að Íslandi, að því er virðist án þess að láta sig varða bakgrunn þess fólks og hugsanleg tengsl við öfga- og hryðjuverkasamtök.“

Það er margt við ummæli Helga Magnúsar að athuga og önnur eru betur til þess fallin að bregðast við ýmsu í þeim, en stjórn Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, sér ástæðu til þess að gera alvarlega athugasemd við ummæli vararíkissaksóknara sem snúa að samtökunum og skjólstæðingum þeirra.

Með ummælum sínum gefur vararíkissaksóknari til kynna að Solaris samtökin tengist með einhverjum hætti einstaklingum sem hafa tengsl við öfga- og hryðjuverkasamtök og að fólk sem hingað kemur í leit að skjóli og vernd tengist upp til hópa slíkum hópum. Þá tengir vararíkissaksóknari sérstaklega fólk frá miðausturlöndum við öfga- og hryðjuverkasamtök með ummælum sínum.

Þessar alvarlegu ásakanir vararíkissaksóknara eiga ekki við nokkur rök að styðjast og ber að fordæma. Það virðist vera í miklu uppáhaldi þessa dagana hjá ákveðnum einstaklingum og hópum í samfélaginu að tengja Solaris, sjálfboðaliða samtakanna og skjólstæðinga þeirra við hryðjuverkastarfsemi. Er það fyrst og fremst gert til þess að draga úr trúverðugleika samtakanna og þeirra sem starfa fyrir þau í sjálfboðavinnu og til þess að ýta undir fordóma og hatur í garð flóttafólks.

Þegar valdhafar taka þátt í slíkri ófrægingarherferð með hatursfullri og hættulegri orðræðu er ekki hægt að láta það óáreitt. Það er með öllu óásættanlegt að maður sem gegnir embætti vararíkissaksóknara leyfi sér að dylgja um fólk með þeim hætti sem Helgi Magnús gerir í færslu sinni.

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds. Ríkissaksóknari fer með yfirstjórn rannsókna sakamála á Íslandi. Embættið hefur jafnframt það hlutverk að samræma og hafa eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá lögreglustjórum og héraðssaksóknara.

Einstaklingur sem starfar hjá æðsta handhafa ákæruvalds á Íslandi getur einfaldlega ekki leyft sér að dreifa rógburði um einstaklinga og hjálparsamtök og ljúga upp á þau tengslum við öfga- og hryðjuverkasamtök. Sá hinn sami hefur með því gert sig vanhæfan í öllu starfi sem snýr að umræddum málaflokkum.

Stjórn Solaris tekur undir með þeim sem hafa bent á að orðræða Helga Magnúsar sé til þess fallin að rýra traust til embættis og ýta undir fordóma og hatur í garð fólks á flótta og sérstaklega fólks frá Miðausturlöndum.

Við hvetjum ríkissaksóknara til þess að taka þessi og önnur nýleg og forkastanleg ummæli Helga Magnúsar, vararíkissaksóknara, til athugunar.

Stjórn Solaris lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri alvarlegu þróun sem á sér stað í samfélaginu, þar sem útlendingaandúð, fordómar í garð flóttafólks og múslimahatur fer vaxandi, ekki síst á meðal fólks í valdastöðum.

Við minnum á að hægt er að tilkynna hatursorðræðu í garð flóttafólks á vef Solaris samtakanna.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja
Fréttir
Í gær

Fjórtán ára drengur stórslasaður eftir að hafa tekið upp flugeld – „Af hverju heldur fólk að einhverjir aðrir gangi frá?“

Fjórtán ára drengur stórslasaður eftir að hafa tekið upp flugeld – „Af hverju heldur fólk að einhverjir aðrir gangi frá?“
Fréttir
Í gær

Anna greindist með krabbamein og þurfti í bráðaaðgerð – „Meinið er búið að dreifa sér“

Anna greindist með krabbamein og þurfti í bráðaaðgerð – „Meinið er búið að dreifa sér“
Fréttir
Í gær

Þrýst á Sigurð Inga að axla ábyrgð eftir slakan árangur Framsóknarflokksins

Þrýst á Sigurð Inga að axla ábyrgð eftir slakan árangur Framsóknarflokksins
Fréttir
Í gær

Billy Crystal missti heimili sitt til 46 ára – Paris Hilton horfði á húsið sitt brenna

Billy Crystal missti heimili sitt til 46 ára – Paris Hilton horfði á húsið sitt brenna