22 ára gamall pólskur maður lést á göngu á Skálafellsjökli í byrjun mánaðar. Hann hét Ignacy Stachura og var búsettur á Íslandi. Fjölskylda hans safnar nú fyrir flutningi líksins heim til Póllands.
Þann 5. júlí var greint frá því að leitað væri að göngumanni á Skálafellsjökli í Vatnajökli. Þyrla var send af stað sem og sleðaflokkur frá Björgunarfélaginu til að leita að manninum sem talinn var einn á ferð en gönguleiðin var afar krefjandi. Degi seinna var greint frá því að göngumaðurinn hefði fundist látinn fyrir botni Birnudals.
Nú er greint frá því í pólskum miðlum að maðurinn hafi verið Ignacy. En það var fjallgöngubloggari að nafni Dawid Siodmiak, félagi Ignacy, einnig búsettur hér, sem sagði sögu hans á Instagram.
Segir hann að Ignacy hafi búið og starfað á Íslandi og þegar hann átti frí fór hann alltaf að ganga á fjöll. Hann hafði þegar náð mörgum áföngum í göngum síðan, sem hann fór stundum með Dawid. Meðal annars að ganga á Hvannadalshnjúk, hæsta tind Íslands.
Ein af síðustu skilaboðunum sem Ignacy sendi heim var ljósmynd af honum á jöklinum með skilaboðunum: „Mamma, ég er á lífi.“
„Við uppfylltum draum okkar um að ganga á hæsta tind Íslands! Eftir það fórum við heim til að vinna. Hvern dag fyrir vinnu fór Ignacy að æfa sig, fór upp í fjöllin og til baka. Á einum frídegi valdi hann að fara meira krefjandi leið, en sneri ekki aftur til okkar… Ég trúi því að við munum hittast á ný á toppi fjallsins!,“ segir Dawid í færslu.
Dawid og Ignacy höfðu aðeins kynnst mánuði áður. En Ignacy starfaði hjá ferðaþjónustufyrirtæki við jöklaferðir.
„Það er sennilega ekki til fallegri staður fyrir áhugamann um fjallgöngur en þessi. Hann kom á bæinn okkar, æfði sig, vann og undirbjó sig undir að uppfylla drauma sína á hverjum degi,“ sagði Dawid.
Samkvæmt pólska miðlinum TVP Bydgoszcz safnar móðir Ignacy, Agnieszka, nú fyrir flutningi hans heim og jarðarför. En hún starfar sem tónlistarkennari í borginni Torun, í vesturhluta landsins.
„Agnieszka missti son sinn Ignacy í hræðilegu slysi á íslandi. Hún þarf fjárhagslegan stuðning til að flytja lík hans heim til Póllands og skipuleggja jarðarför,“ sagði Justina Sawicka stofnandi fjáröflunarinnar á hópfjármögnunarvefsíðunni Pomagam.