Skiptalok hafa orðið í uppgjöri á þrotabúi Brunch ehf. sem var í eigu Stefáns Magnússonar og rak meðal annars Mathús Garðabæjar. Sá veitingastaður er enn í rekstri en í eigu annarra aðila.
Tilkynning um skiptalok hjá Brunch ehf. birtist í Lögbirtingablaðinu í dag. Engar eignir fundust í búinu og var skiptum lokið í því þann 28. júní 2024. Lýstar kröfur voru vel yfir hundrað milljónir króna, eða kr. 110.135.986.
Fjallað var um gjaldþrot félagsins á Smartlandi mbl.is í fyrrahaust. Þar kom fram að Brunch ehf. var úrskurðað gjaldþrota þann 14. september 2023. Ennfremur segir í fréttinni:
„Stefán Magnússon er kokkur að mennt og gerði það gott í veitingarekstri hérlendis. Auk Mathúss Garðabæjar hefur hann rekið Sjáland í Garðabænum, Reykjavík Meat og Nü Asian Fusion. Greint var frá því á mbl.is í gær að annað félag Stefáns, Gourmet ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota og Sjálandi lokað.
Mathús Garðabæjar er ennþá opið en eigendaskipti urðu á því síðasta haust þegar félagið MHG10 ehf. keypti staðinn af Brunch ehf.“