Dálítil töf varð á brottför farþegavélar Play sem flaug frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur um ellefuleytið í morgun, vegna flugdólgs.
Farþegi um borð greindi DV frá atvikinu. Greindi hann fá því að maður hefði verið með ógnandi hegðun í garð flugfreyja. Farþeginn hafði eftir flugstjóra að ekki væri hættandi á að fara með svona farþegar í þriggja tíma flug, ekki væri hægt að vita upp á hverju þeir taka.
Barn og kona um borð yfirgáfu vélina líka í tengslum við það að dólginum var vísað frá borði, að sögn farþegans.
DV bar atvikið undir Birgi Olgeirsson, sérfræðing á samskiptasviði Play. „Það var einn farþegi fjarlægður frá borði sem hafði verið með óspektir, fyrir brottför frá Kaupmannahöfn,“ segir Birgir í samtali við DV.
Birgir staðfestir að fleiri farþegar hafi farið frá borði vegna þessarar uppákomu: „Það voru þrír farþegar sem vildu fara frá borði, þeir vildu ekki fara án hans.“
Birgir veit ekki nákvæmlega hvernig fólkið tengdist fugdólgnum en segir: „Ég fæ þær upplýsingar að þau vildu ekki ferðast án hans.“
Fjórir farþegar fóru því frá borði, einn var fjarlægður en þrír fóru sjálfviljugir.
Birgir upplýsir að áætluð seinkun flugsins til Keflavíkur sé 13 mínútur vegna málsins. Varðandi það hverjar vinnureglur séu þegar farþegar gerast sekir um dólgslega framkomu, segir Birgir:
„Ef menn fara ekki eftir tilmælum áhafnar þá eru menn fjarlægðir frá borði á endanum.“