Íslendingurinn sem fannst látinn á Spáni þann 12. júlí síðastliðinn hét Pálmi Þór Erlingsson og var fæddur árið 1976, 47 ára að aldri. Nútíminn greindi frá nafni hins látna fyrir stundu.
Eins og DV greindi frá í morgun var andlát Pálma Þórs komið inn á borð borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins auk þess sem lögregluyfirvöldum hafði verið gert kunngjört um andlátið.
Pálmi Þór, sem var faðir fjögurra barna, lést af slysförum samkvæmt frétt Nútímans á Alicante-svæðinu á Spáni. Kemur fram að hluti fjölskyldu Pálma Þórs sé nú úti að ganga frá málum varðandi andlátið.
Í umfjöllun Nútímans kemur fram að Pálmi Þór hafi verið mikill fjölskyldumaður og aðstandendur hans séu harmi slegnir yfir fráfalli hans.
Ranglega er sagt í umfjöllun Nútímans og þessari frétt að Pálmi Þór hafi látist af slysförum. Banamein hans voru bráð veikindi. Beðist er velvirðingar á þessu.