Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa orðið fyrir skotárás á kosningafundi í Butlet í Pennsylvaníu-fylki í Bandaríkjunum í kvöld. Ekki liggur fyrir hvers konar vopn var notað í árásinni.
Í myndskeiði af atvikinu má sjá Trump falla til jarðar eftir háværa hvelli en lífverðir hans brugðust fljótt við og umkringdu forsetaframbjóðandann.
Trump virðist hins vegar jafna sig fljótt, hann reis á fætur, umkringdur lífvörður og rak síðan hnefann á loft til stuðningsmanna sinna sem fögnuðu honum ákaft. Lífverðir hans hröðuðu honum sínum af sviðinu og var hann fluttur í skyndi af svæðinu og á sjúkrahús.
Sjá mátti að það blæddi úr hægra eyra Trumps en fyrstu fregnir herma að frambjóðandinn muni ná sér að fullu.
Samkvæmt frétt Skynews er skotmaðurinn sagður látinn sem og áhorfandi á fundinum. Þá er annar áhorfandi sagður vera alvarlega særður.
Fréttin verður uppfærð