fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
Fréttir

Óskar segir Hafnarfjarðarbæ hafa refsað sér fyrir gagnrýnina

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 11. júlí 2024 14:30

Óskar Steinn Ómarsson. Mynd frá 2018

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óskar Steinn Ómarsson segir farir sínar ekki sléttar af ráðingarferli Hafnarfjarðarbæjar í Facebook-færslu sem hann veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um. Segist Óskar hafa verið ráðinn í stöðu deildarstjóra tómstundamiðstöðvar Hraunvallaskóla, sem er einn grunnskólanna í bænum. Eftir að hann gagnrýndi opinberlega þá ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar að loka ungmennahúsinu Hamrinum hafi sér hins vegar verið tilkynnt að ráðningin hafi verið hér dregin til baka. Segist Óskar því óhjákvæmilega velta fyrir sér hvort um pólitísk afskipti af starfsmannamálum Hafnarfjarðarbæjar sé að ræða.

Óskar segist hafa sótt um starfið á vormánuðum og að loknu ráðningarferli hafi skólastjóri Hraunvallaskóla tilkynnt sér að hann hefði orðið fyrir valinu og boðið honum starfið. Óskar segir að í kjölfarið hafi hann tilkynnt yfirmanni sínum á leikskóla þar sem hann starfaði að hann segði því starfi hér með lausu. Að öðru leyti hafi hann ekki sagt neinum frá því að hann hefði verið ráðinn í starfið. Næstu daga hafi hann fengið skilaboð frá starfsfólki í Hraunvallaskóla og í stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar sem hafi óskað honum til hamingju með starfið.

Allt hafi breyst eftir greinina

Viku eftir að hann hafi verið ráðinn í starfið hafi meirihluta bæjarstjórnar tekið ákvörðunina um að loka ungmennahúsinu Hamrinum þar sem hann hafði starfað í hlutastarfi frá 2019. Óskar taldi þessa ákvörðun ekki vera skynsamlega og ungmennastarfi bæjarins ekki til góða og leyfði sér að gagnrýna hana opinberlega:

„Ég tjáði mig um þá ákvörðun og leyfði mér að gagnrýna meirihluta bæjarstjórnar harðlega, eins og ég trúði að mér væri frjálst að gera sem frjáls maður í frjálsu landi. Ég skrifaði m.a. grein um málið á Vísi þar sem ég fór yfir málsatvik og lá ekki á skoðunum mínum um bæjaryfirvöld og vinnubrögð þeirra í málinu.“

Grein Óskars er hægt að lesa hér.

Óskar segir að daginn eftir að greinin birtist hafi verið þrjár vikur liðnar frá því að hann var ráðinn í starfið. Þá hafi honum borist símtal frá skólastjóra Hraunvallaskóla:

„Við nánari athugun hafði komið í ljós, sagði hann mér, að ég stæðist ekki menntunarkröfur til starfsins. Falla þyrfti frá ráðningu og auglýsa starfið upp á nýtt.“

Misjafnar kröfur

Óskar segist hafa orðið forviða og óskað eftir rökstuðningi:

„Ég óskaði eftir nánari rökstuðningi og í honum segir að BA gráða mín í stjórnmálafræði sé ekki nógu skyld tómstundafræði eða menntunarfræði til að hún geti talist sem „annað háskólanám sem nýtist í starfi.“ Í rökstuðningnum er alveg skautað framhjá áralangri reynslu minni af tómstundastarfi með ungmennum og þeim fjölmörgu námskeiðum sem ég hef í farteskinu um ungmennastarf. Þar að auki virðist það engu máli skipta að í nokkrum tómstundamiðstöðvum Hafnarfjarðar starfa deildarstjórar með aðra háskólamenntun, meðal annars í stjórnmálafræði.“

Óskar segist ekki fullyrða að hann sé hæfasti einstaklingur á landinu til að gegna starfinu en í ljósi þess að hann var ráðinn hljóti hann að hafa verið hæfastur þeirra sem sóttu um. Nú standi hann í stappi við Hafnarfjarðarbæ um hvort bærinn geti fallið frá ráðningu í starf sem þegar sé búið að ráða hann í. Birtir Óskar skjáskot því til stuðnings en þar má sjá hann enn skráðan sem deildarstjóra tómstundamiðstöðvar Hraunvallaskóla í mannauðskerfi Hafnarfjarðarbæjar.

Starfið er nú auglýst laust til umsóknar á vef bæjarins og hefur að sögn Óskars verið auglýst einnig á samfélagsmiðlum og umsóknarfrestur hafi raunar verið framlengdur sem gefi til kynna að framboð af umsækjendum hafi ekki þótt nógu gott.

Óskar segir að lokum að eftir sitji hann í atvinnuleit og geti ekki annað en velt fyrir sér hvort búið sé að afnema tjáningarfrelsið innan bæjarmarka Hafnarfjarðar.

DV hafði samband við skólastjóra Hraunvallaskóla sem vísaði á samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar. DV sendi samskiptastjóranum ítarlega fyrirspurn vegna málsins og mun greina frá svörunum ef og þegar þau berast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Líkfundur á Tenerife í tengslum við leitina að Jay Slater

Líkfundur á Tenerife í tengslum við leitina að Jay Slater
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Dómur kveðinn upp yfir Kourani – Hefur brotið af sér og ofsótt fólk árum saman

Dómur kveðinn upp yfir Kourani – Hefur brotið af sér og ofsótt fólk árum saman
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðrún ætlar ekki að flytja inn í Biskupsgarð – Agnes flytur út og glæsihýsið verður selt

Guðrún ætlar ekki að flytja inn í Biskupsgarð – Agnes flytur út og glæsihýsið verður selt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Drama í ófullgerðu fjöleignarhúsi – Ósátt við nýju veggina og neituðu að færa bílana

Drama í ófullgerðu fjöleignarhúsi – Ósátt við nýju veggina og neituðu að færa bílana
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fleiri Loga töskur dúkka upp – „Hvað er í gangi?“

Fleiri Loga töskur dúkka upp – „Hvað er í gangi?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Dópaði og drukkni skipstjórinn hlaut tólf mánaða skilorðsbundinn dóm

Dópaði og drukkni skipstjórinn hlaut tólf mánaða skilorðsbundinn dóm