Í Lögbirtingablaðinu er í dag birt stefna til ógildingar á veðskuldabréfi sem fyrirtæki nokkurt gaf út en bréfið var tryggt með veðrétti í fasteign fyrirtækisins í Suðurnesjabæ. Ástæða stefnunnar er að upphæð veðskuldabréfsins, sem var gefið út í Bandaríkjadollurum, var vegna mistaka of há og því margfalt hærra en virði fasteignarinnar. Það átti að vera 82.000 dollarar (11,3 milljónir íslenskra króna) en var 82.000.000 dollarar (11,3 milljarðar íslenskra króna). Sýslumaðurinn á Suðurnesjum neitaði hins vegar að aflétta veðskuldabréfinu af eigninni og því hefur fyrirtækið lagt fram stefnu til að fá bréfið ógilt fyrir dómi.
Umrædd fasteign er einbýlishús en fasteignamat þess er 9,2 milljónir króna en mun hækka á næsta ári upp í 10,2 milljónir. Ljóst er því að upphæð veðskuldabréfsins er margfalt hærri en virði þeirrar fasteignar sem það er tryggt með veði í.
Í stefnunni segir að veðskuldabréfið hafi verið gefið út í febrúar síðastliðnum til manns sem búsettur er í Bandaríkjunum. Veðskuldabréfið sé tryggt með 1. veðrétti í umræddri fasteign í Suðurnesjabæ. Það hafi verið innfært í þinglýsingabækur daginn eftir að það var gefið út.
Skuldabréfið átti að afhenda kröfuhafanum, manninum sem búsettur er í Bandaríkjunum, gegn því að hann afhenti fyrirtækinu fjárhæð í íslenskum krónum sem samsvaraði 82.000 dollurum. Upphæðin hafi hins vegar verið misrituð á bréfið og þar standi 82.000.000 en ekki 82.000 eins og til hafi staðið.
Í stefnunni segir enn fremur að vegna mistakanna hafi ekki getað orðið af því að skuldabréfið nýttist sem viðskiptabréf. Bréfið hafi aldrei verið afhent og standi því engin kröfuréttindi að baki því. Þess vegna sé nauðsynlegt að láta ógilda veðskuldabréfið með dómi svo að hægt sé að aflétta því af fasteigninni í Suðurnesjabæ og afmá það úr þinglýsingabókum.
Fyrirtækið hafi frumritið í sinni vörslu. Það hafi verið afhent til aflýsingar og lagt inn hjá embætti sýslumannsins á Suðurnesjum með kröfu um, að því yrði aflýst af fasteigninni en embættið hafnað því að taka bréfið til aflýsingar með vísan til þess að það skorti áritun kröfuhafa, sem eins og áður sagði býr í Bandaríkjunum, í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga. Af þeim sökum sé fyrirtækinu nauðugur einn kostur að fá veðskuldabréfið ógilt með dómi.
Í stefnunni er hver sá sem kunni að telja sig kröfuhafa á grundvelli veðskuldabréfsins kallaður til að mæta við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness í september næstkomandi og leggja fram gögn og sanna rétt sinn til skuldabréfsins.
Hvort upphaflega kröfuhafanum, áðurnefndum manni sem búsettur er í Bandaríkjunum, sem tilgreindur er í stefnunni er kunnugt um þessa þróun mála kemur hins vegar ekki fram.