„Þetta er búið að vera hræðilegt, ég er búinn að drekka 10-20 bjóra á dag, daglega. Ef ég drekk einn, tvo bjóra á morgnana þá fúnkera ég í vinnu en stundum fer ég yfir strikið og bara get ekki mætt í vinnu og er bara fullur,“ segir karlmaður á Akureyri.
Maðurinn hefur verið á biðlista um að komast í meðferð í níu mánuði. Hann segir sögu sína í viðtali í nýjasta þætti Lífið á biðlista, en viðtalið var tekið í mars og hafði maðurinn þá verið á biðlista í fimm mánuði. Hann bíður enn á biðlistanum eftir að komast í meðferð.
Hann segir vinnuveitanda sinn sýna sér skilning og það sé honum að þakka að hann hafi fengið niðurtröppunarlyf og þegar viðtalið er tekið hafi hann ekki drukkið í sex daga.
„Ég er búinn að vera dagdrykkjumaður í 25 ár. Ég er búinn að fara þrisvar áður í meðferð,“ segir maðurinn sem segist á tímabili hafa verið edrú í eitt og hálft ár.
Maðurinn segist hafa fallið þegar göngudeildin á Akureyri lokaði í ár vegna sumarfría, einn starfsmaðurinn vinni á deildinni. „Mig vantar pínu stuðning. Ég er búinn að hringja í SÁÁ því ég vil skemma ekki það sem ég er búinn að ná núna, en mér er bara sagt að starfsmaðurinn sé í fríi,“ segir maðurinn. Hann segist ekki hafa valið sér fíknisjúkdóminn, en viti vel að hann hafi þróað hann með sér.
Sjúkdómurinn hefur haft áhrif á fjölskylduna og segir hann móður sína eina taugahrúgu. Nú bíði hann eftir innlögn og segist hann hringja í SÁÁ þrisvar sinnum í viku til að fá upplýsingar um hvenær hann fær innlögn og gagnrýnir það að fá alltaf mismunandi svör. Stundum segi þau nokkrar vikur, stundum nokkra mánuði.
„Fjölskylda mín er góður stuðningur,“ segir maðurinn sem segist einnig mjög þakklátur vinkonu sinni sem hefur vakað yfir honum og passað upp á hann á, látið hann taka töflurnar sínar og svo framvegis.
Í þættinum er einnig rætt við vinkonu mannsins.