fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fréttir

Vildi fá skaðabætur eftir að ósamþykkti sólpallurinn var rifinn

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 10. júlí 2024 11:30

Kærunefnd húsamála er til húsa að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur sent frá sér álit í máli sem eigandi íbúðar beindi til nefndarinnar. Krafðist eigandinn þess að viðurkennt væri að sólpallur sem væri fyrir eignarhluta hans í fjöleignarhúsi hefði ekki verið þar í óleyfi. Einnig krafðist viðkomandi þess að viðurkennt væri að húsfélagið í húsinu ætti að bæta tjón sem varð á sólpallinum sem var rifinn eftir framkvæmdir á ytra byrði hússins. Nefndin varð hins vegar ekki við kröfum eigandans.

Um málavexti segir í álitinu að árið 2021 hafi komið ljós að vegna utanaðkomandi leka væri sprunga í steypu á samskeytum hússins og næsta húss. Sprungan hafi verið full af vatni og leitt til leka niður í bílakjallara hússins sem var undir sólpallinum. Sólpallurinn hafi því verið rifinn til þess að unnt væri að komast að sprungunni og gera við steypu, bæði utan á húsinu og á samskeytum hússins og bílakjallarans. Einnig hafi sólpallar við tvo aðra eignarhluta í húsinu verið rifnir. Í eignaskiptayfirlýsingu hússins frá 1990 sé svæðið þar sem sólpallarnir voru reistir merkt sem þakgarður.

Eigandinn vísaði til þess að ekki komi fram í eignaskiptayfirlýsingunni hvort umrætt svæði sé í sameign eða séreign, en á þetta svæði komist enginn nema frá þessum þremur eignarhlutum. Sé svæðið í sameign beri að hafa hliðsjón af því að sólpallurinn hafi verið á þessu svæði í um 20 ár en engin gögn séu til um hvernig hafi upphaflega verið staðið að samþykkt fyrir pallinn og líklega útilokað að afla þeirra nú.

Þá hafi húsfélagið ekki sýnt fram á að skort hafi heimild fyrir byggingu sólpallsins fyrir tveimur áratugum. Hafi hann ekki verið samþykktur sé vegna tómlætis ekki hægt svo löngu síðar að krefjast þess að hann verði fjarlægður. Þá hafi engar athugasemdir komið fram vegna sólpallsins fyrr en kröfur eigandans um að húsfélagið greiði kostnað við að endurreisa hann hafi komið fram. Sólpallurinn sé í séreign þótt hann hafi verið reistur á sameign og því um að ræða tjón á séreign vegna viðgerða á sameign sem sé bótaskylt.

Í góðri trú

Eigandinn sagðist hafa keypt eignarhluta sinn árið 2014 í góðri trú um að sólpallurinn væri þar með leyfi húsfélagsins. Þegar eignarhluturinn hafi verið til sölu árið 2014 hafi húsfélagið engar athugasemdir gert við sólpallinn. Þá hafi núverandi eigendur  í húsinu flestir flutt inn eftir að sólpallurinn hafi verið reistur og hefði þeim ekki átt að geta dulist hvernig afmörkun eignarhluta eigandans hafi í raun verið háttað.

Húsfélagið sagði í sínum andsvörum að sólpallurinn hafi verið byggður í leyfisleysi, þ.e. bæði án samþykkis annarra eigenda og byggingarleyfis. Ekkert í eignaskiptayfirlýsingu, byggingarsögu eða skráningu í fasteignaskrá bendi til þess að þakgarðurinn, þar sem sólpallurinn var, tilheyri séreign viðkomandi eiganda og tilheyri hann því sameign samkvæmt meginreglu laga um fjöleignarhús. Dómaframkvæmd sé skýr um að reglur kröfuréttar um tómlæti og réttaráhrif verði ekki beitt við þessar aðstæður. Sönnunarbyrði fyrir samþykki hvíli á eigandanum.

Kærunefnd húsamála komst að þeirri niðurstöðu að engin gögn liggi fyrir um að samþykki hafi verið aflað fyrir sólpallinum. Nefndin féllst heldur ekki á í ljósi laga um fjöleignarhús að aðrir eigendur í húsinu hefðu glatað rétti til að andmæla pallinum af því hann hefði fengið að standa athugasemdalaust í 20 ár. Kröfu eigandans um að viðurkennt væri að sólpallurinn hefði ekki verið við eignarhluta hans í óleyfi var þar af leiðandi hafnað. Nefndin segir að í ljósi þeirrar niðurstöðu sé heldur ekki hægt að fallast á að sólpallurinn hafi talist séreign í skilningi laga um fjöleignarhús. Síðari kröfu eigandans um að húsfélagið ætti að bæta honum sólpallinn var því einnig hafnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi