Flokkur fólksins hefur harðlega mótmælt versnandi aðgengi og stækkandi gjaldsvæðis sem kemur verst niður á þeim sem lengra koma frá.
DV fjallaði í gær um grein Aldísar Þóru Steindórsdóttur sem segir föður sinn, sem býr í félagslegu húsnæði í miðbænum, hafa sótt um flutning úr miðbænum eingöngu vegna þess að bílastæðamálin hafa gríðarleg áhrif á hann og aðstandendur hans. Hún hafi reynt að leita svara við þessu hjá Reykjavíkurborg en án árangurs.
Sjá einnig: Aldís segir föður sinn þurfa að flýja miðbæinn vegna mismununar borgaryfirvalda
Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram bókun um bílastæðamálin þann 12. júní síðastliðinn á fundi Umhverfis- og skipulagsráðs undir liðnum: Lagt er til að umhverfis- og skipulagsráð samþykki eftirfarandi tillögu að breytingu á gjaldsvæðum bílastæða Reykjavíkurborgar:
„Flokkur fólksins hefur gagnrýnt það ófremdarástand sem ríkir í bílastæðamálum borgarinnar. Reykjavíkurborg hefur stóraukið gjaldtöku fyrir bílastæðaafnot og stækkað gjaldtökusvæði. Búið er að hækka gjaldskrár og lengja gjaldskyldutímann til kl. 21 alla daga vikunnar. Gjaldskylda er nú einnig á sunnudögum. Frumskógur innheimtuleiða kemur illa niður á neytendum. Bílastæðum fækkar án þess að því sé mætt með bættum almenningssamgöngum. Engin þörf er á að rukka fyrir bílastæði sem eru tóm um helgar, á kvöldin og á nóttunni. Tilgangurinn virðist sá einn að hafa fjármuni af bílaeigendum. Þessi fjölgun gjaldskyldusvæða leiðir til ásóknar í gjaldfrjáls stæði í grónum hverfum sem skapar óþægindi fyrir íbúa þar. Skortur er á upplýsingagjöf um verðlagningu og lengd gjaldtökutíma á einkastæðum. Ekkert þak eða hámark er á upphæð bílastæðagjalda eða svokallaðar þjónustu-eða vanræksluinnheimtur. Gjaldtaka á sumum nýlegum bílastæðum í einkaeigu lyktar af græðgi. Dæmi eru um að klukkutíminn kosti 1000 kr. á bílastæðum þar sem innheimt allan sólarhringinn alla daga ársins. Eitt af hlutverkum sveitarfélaga er að gæta hagsmuna neytenda varðandi mögulega óréttmæta viðskiptahætti. Fjölmargir bílaeigendur lenda í því að fá ranglega kröfu um vanrækslugjöld vegna þess að þeir greiddu ekki fyrir rétt stæði eða voru ekki með rétt smáforrit. Þessi bílastæðagjöld eru algjör frumskógur fyrir neytendur.“