fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Heiðar fjárfestir segir umdeildar áætlanir Carbfix í Straumsvík fáránlegar

Ritstjórn DV
Laugardaginn 6. júlí 2024 15:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heiðar Guðjónsson hagfræðingur og fjárfestir, sem hefur meðal annars verið forstjóri fjölmiðlafyrirtækisins Sýnar, hefur ritað grein á Vísi um umdeildar áætlanir fyrirtækisins Carbfix sem ganga undir heitinu Coda Terminal. Í stuttu máli hyggst fyrirtækið, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, dæla koldíoxíði í jörð í Straumsvík og þar með í námunda við íbúabyggð í Hafnarfirði. Íbúar hafa meðal annars mótmælt áformunum á grundvelli áhrifa þess á grunnvatn. Heiðar tekur undir þessar áhyggjur og segir áætlanirnar fáránlegar.

Ólga í Hafnarfirði – „Svona verkefni hefur aldrei verið framkvæmt af þessari stærðargráðu í heiminum, hvað þá í tilraunaskyni svona nálægt íbúabyggð“

Heiðar sem hallast nokkuð til hægri í stjórnmálum ritar í upphafi greinarinnar að hann telji það liggja alveg ljóst fyrir að ráðast verði í frekari orkuvinnslu til að stuðla að orkuskiptum og draga þannig úr innflutningi á jarðefna eldsneyti. Hann segir það í raun ótrúlegt að í landi sem búi yfir nægri grænni orku skuli það vera að einhverju leyti erfiðleikum bundið að nálgast orku til húshitunar:

„Í dag búum við skammtanir á heitu vatni og öruggt aðgengi að húshitun hefur snarminnkað á síðustu árum. Stærsti hluti orku heimsins fer til húsnæðis. Að halda jöfnu hitastigi á húsum útheimtir meira en helming allrar orkunotkunar jarðarinnar, meira en samgöngur og rafmagnsframleiðsla til samans. Ísland er fremst í flokki í þessum efnum en hefur einhverra hluta vegna ekki fengið það metið í samningum um að minnka losun kolefna í andrúmsloftið, heldur tekið á sig skuldbindingar í þeim efnum. Þar hefur hagsmunagæsla íslenskra stjórnvalda og embættismanna beðið algert skipbrot.“

Misheppnað gæluverkefni

Heiðar segir Orkuveitu Reykjavíkur dæmi um þetta:

„En það er líka hægt að horfa til Orkuveitu Reykjavíkur til að reyna skilja hvers vegna Ísland er komið í ógöngur. Þar hafa hagsmunir almennings mátt víkja fyrir gæluverkefnum borgarstjórnar og embættismanna.“

Hann segir Orkuveituna ætla sér með áætlunum Carbfix að leysa þann vanda sem skapast í öðrum löndum við það húshitun sem krefjist mestrar orku fari víðast hvar fram með bruna jarðefnaeldsneytis, ekki síst kolum, með tilheyrandi útblæstri koldíoxíðs:

„Setja evrópskan útblástur í olíuknúin skip sem sigla til Straumsvíkur þar sem menguninni er dælt ofaní borholur í þeirri von um að hún steingerist í jarðlögum Íslands.“

Heiðar segir að mikið rask þurfi til að koma verkefninu á koppinn:

„Það eru engar holur við Straumsvík og í raun ekki höfn fyrir verkefnið heldur. Þar undir hrauninu rennur hins vegar ein stærsta ferskvatnsá landsins Það þarf að byggja og bora fyrir tugi milljarða með gríðarlegu umhverfisraski, til að Evrópa geti haldið áfram að brenna kolum og þetta þarf að gera á Íslandi því bergið er svo ungt og tekur svo vel við. Og þá er ekki minnst á mengun ferskvatnsins.“

Orkuveitan hafi brugðist

Heiðar segir þetta fáránlegt. Evrópusambandið hafi sett íþyngjandi gjöld og reglur um mengun á Íslandi en sendi til baka styrki til Carbfix verkefnisins svo að Ísland geti tekið við menguninni frá ríkjum sambandsins og sett hana í jörð.

Hann segir Orkuveitu Reykjavíkur  hafa brugðiðst viðskiptavinum sínum:

„Í stað þess að tryggja þeim húshitun og rafmagn á hagstæðu verði hefur fyrirtækið farið í pólitísk gæluverkefni. Á meðan hefur nauðsynleg orkuöflun ekki átt sér stað, viðhald setið á hakanum með tilheyrandi sprungnum hitavatnsleiðslum, og gríðarlegum fjármunum verið sólundað. Það er ljóst að aukin framleiðsla grænnar orku eru hagsmunir Íslands og hagsmunir heimsins.“

Segir Heiðar að lokum og spyr hver hafi tekið ákvörðun um að ráðast í þetta umdeilda verkefni:

„Hver ákvað að betri leið væri að auka ekki græna orkuframleiðslu hér heldur reyna, með tilheyrandi orkusóun, að reyna að grænka mengandi evrópska orkuframleiðslu með því að flytja mengunina hingað?“

Grein Heiðars er hægt að nálgast hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Aftur sektaðir af KSÍ
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás