fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fréttir

Eyjamenn ósáttir við þögn Orkustofnunar og ætla í hart

Ritstjórn DV
Laugardaginn 6. júlí 2024 11:10

Frá Vestmannaeyjum. Mynd: Óskar Friðriksson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í nýliðinni viku var samþykkt að senda kvörtun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og jafn framt erindi til umboðsmanns Alþingis vegna skorts á svörum frá Orkustofnun.

Varðar málið nýlegar gjaldskrárhækkanir HS Veitna á heitu vatni í bænum. Gjalskráin var hækkuð í september á síðasta ári og svo aftur í janúar síðastliðnum. Í bókun bæjarráðs segir:

Þrátt fyrir enn eina ítekunina við Orkustofnun um að fá rökstuðning og upplýsingar um allar þær hækkanir sem lágu til gundvallar við samþykkt gjaldskrárhækkana HS Veitna á heitu vatni í september og janúar sl. hefur ekkert svar borist.

Í fundargerðinni kemur jafn framt fram að í áðurnefndu erindi til umboðmanns Alþingis verði leitað svara við því hvort þessi stjórnsýsluhættir Orkustofnunar teljist eðlilegir.

Málið er rakið í nokkrum fundargerðum bæjarráðs síðan í janúar en þess ber að geta að í bænum er ekki hitaveita sem hitar hús með jarðhita eins og íbúar á suðvesturhorninu og víðar um land þekkja heldur er um að ræða varmadælustöð sem hitar vatnið. Er stöðin knúin varma úr sjó og rafmagni.

Hærra verð og meira magn

Í fundargerð bæjarráðs 9. janúar síðastliðinn segir að HS Veitur hafi tilkynnt um 18 prósent hækkun á gjaldskrá til húshitunar í Vestmannaeyjum og hafi hækkunin tekið gildi 1. janúar. Þetta hafi verið önnur hækkunin á stuttum tíma frá því í september 2023 en þá hafi gjaldskráin hækkað um 15 prósent. Bæjarstjóri hafi sent fyrirspurn á Orkumálastjóra og Orkumálaráðherra og óskað eftir staðfestingu á því hvort að HS-veitum sé heimilt á fjögurra mánaða tímabili að hækka gjaldskrá hitaveitu (fjarvarmaveitu) til Eyjamanna um 25 prósent auk þess að lækka hitastigið á vatninu sem þýði að kaupa þurfi meira magn af vatni til að halda sama hita. Hækkunin sé því rúmlega 30 prósent frá 1. september. Svar hafi borist frá Orkustofnun sem hafi heimilað þessar hækkanir HS-Veitna.

Miðað við bókunina frá fundi bæjarráðs í síðustu viku hefur svar Orkustofnunar ekki falið í sér nægilegar skýringar, að mati Vestmannaeyjabæjar, á forsendum þess að hækkanirnar hafi verið heimilaðar.

Á fundi bæjarráðs 31. janúar síðastliðinn kom hins vegar fram að Orkustofnun hafi upplýst bæjarstjóra um að orkumálaráðherra hafi lagt til auknar niðurgreiðslur til íbúa í Vestmannaeyjum vegna þessara tveggja hækkana á orkuverði til húshitunar. Niðurgreiðslan frá 1. september hafi ekki skilað sér einhverra hluta vegna til notenda en hún hafi átt að koma fram á reikningum frá HS Veitum. Leiðrétt uppgjör hafi átt að koma í næsta reikningi frá HS Veitum og til viðbótar aukin niðurgreiðsla frá 1. janúar. Votu íbúar bæjarins hvattir til að hafa samband við HS Veitur vegna sinna reikninga.

Vilja fá rökstuðning og svör

Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum ætla hins vegar ekki að láta sér þessar niðurgreiðslur nægja og vilja fá svör og frekari rökstuðning fyrir forsendum hækkananna tveggja.

Í fundargerð bæjarráðs frá 30. apríl segir að bærinn hafi 25. mars sent erindi til Orkustofnunar og Orkumálaráðuneytis, samkvæmt ósk bæjarstjórnar, þar sem beðið hafi verið um rökstuðning og upplýsingar sem legið hafi til grundvallar við samþykkt þessara gjaldskrárhækkana HS Veitna á heitu vatni upp á samtals 33%.

Orkumálaráðuneytið hafi viljað kanna hjá HS Veitum hvort það bryti mögulega í bága við upplýsingalög að láta Vestamannaeyjabæ þessar upplýsingar í té. Beðið sé frekari svara. Ekkert svar eða viðbrögð hafi borist frá Orkustofnun, þrátt fyrir ítrekanir og beiðni um staðfestingu á móttöku erindis. Bæjarráð komst á fundinum að eftirfarandi niðurstöðu:

„Bæjarráð telur óásættanlegt að engin viðbrögð hafi komið frá orkumálastjóra í þessu mikla hagsmunamáli Vestmannaeyinga og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að senda erindið á staðgengil orkumálastjóra og óska viðbragða.“

Þarna er átt við Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra en þegar þessi fundur bæjarráðs fór fram var hún í leyfi vegna framboðs síns til forseta Íslands en á meðan gegndi Sara Lind Guðbergsdóttir starfi orkumálastjóra.

Tap og hækkanir

Svar barst loks frá ráðuneyti umhverfis-, orku-,  og loftslagsmála. Í fundagerð bæjarráðs Vestmannaeyja frá 5. júní síðastliðnum segir að í svari ráðuneytisins komi fram að helstu skýringar HS Veitna á hækkununum séu annars vegar verulegur taprekstur síðastliðin ár og hins vegar hækkanir hjá Landsneti og Landsvirkjun. Á grundvelli þessara skýringa hafi ráðuneytið samþykkt umræddar gjaldskrárhækkanir en bendi á að samhliða hækkunum hafi niðurgreiðslur til húshitunar í Vestmannaeyjum verið hækkaðar og sé orkuverðið því sambærilegt við verð annarra fjarvarmaveitna og rafkyntra veitna hérlendis.

Jafnframt komi fram í svari frá ráðuneytinu að sundurliðaðar fjárhagsupplýsingar um afkomu hitaveitustarfseminnar í Eyjum árið 2024, með og án hækkunar gjaldskrár, sem hafi verið í viðauka með bréfi HS Veitna til ráðuneytisins í nóvember 2023 verði ekki afhentar að svo stöddu þar sem HS Veitur beri því við að um sé að ræða vinnugögn og viðkvæmar fjárhagsupplýsingar, sem undanþegnar séu upplýsingarétti.

Bæjarstjórn hafi óskað eftir samskonar upplýsingum frá Orkustofnun en ekki hafi enn borist svar. Í niðurstöðu fundarins segir:

„Bæjarráð fer fram á það við ráðuneytið að fá þau gögn sem liggja að baki erindi HS Veitna frá því í júní og nóvember 2023. Einnig ítrekar bæjarráð i þriðja sinn að Orkustofnun svari erindinu ellegar þurfi Vestmannaeyjabær að leita annarra leiða til að fá upplýsingarnar frá stofnuninni.“

Ljóst er hins vegar að svör hafa enn ekki borist Vestmannaeyjabæ frá Orkustofnun og mun bærinn því kvarta formlega við úrskurðarnefnd um upplýsingamál og umboðsmanns Alþingis vegna þessa skorts á svörum frá stofnuninni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Landlæknir Bandaríkjanna vill vara við krabbameinshættu sem fylgir áfengisneyslu – Áfengisiðnaðurinn nötrar

Landlæknir Bandaríkjanna vill vara við krabbameinshættu sem fylgir áfengisneyslu – Áfengisiðnaðurinn nötrar
Fréttir
Í gær

Ákvað að fara ekki í bæinn á gamlárskvöld heldur vera heima og ná myndbandi af ótrúlegu samspili

Ákvað að fara ekki í bæinn á gamlárskvöld heldur vera heima og ná myndbandi af ótrúlegu samspili
Fréttir
Í gær

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Armando biður um hjálp – Hefur þú séð þennan bíl?

Armando biður um hjálp – Hefur þú séð þennan bíl?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ungur Blönduósingur varð fyrir hrottalegri hópárás í Liverpool

Ungur Blönduósingur varð fyrir hrottalegri hópárás í Liverpool
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“