Dómur verður kveðinn upp yfir Sýrlendingnum Mohammad Kourani í Héraðsdómi Reykjaness þann 15. júlí næstkomandi, eða eftir 11 daga. Kourani er ákærður fyrir sex ofbeldisbrot, þar á meðal manndrápstilraun og alvarlega líkamsárás inni í versluninni OK Market í marsmánuði síðastliðnum.
Mál Kourani hafa vakið mikla athygli á undanförnum mánuðum því komið hefur í ljós að hann hefur ofsótt fjölmargt fólk með lífsláts- og líkamsmeiðingarhótunum árum saman. Meðal þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á Kourani er Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sem lýsti ofsóknum Kourani á hendur sér fyrr á árinu.
Kourani hlaut alþjóðlega vernd hér á landi árið 2018. Mörgum blöskrar það og í umræðum á netinu hefur krafa um að honum verði vísað úr landi verið hávær. Ekkert í útlendingalögum virðist hins vegar heimila slíkt. Einn staflifur kemst í áttina að því, í 40. gr. útlendingalaganna er kveðið á um atriði sem leiða til þess að flóttamaður fær ekki alþjóðlega vernd hér á landi. Í 2. málsgrein greinarinnar, c-lið, segir:
„…flóttamann skv. 2. mgr. 37. gr., ef skynsamlegar ástæður eru til að álíta hann hættulegan öryggi ríkisins eða hann hefur hlotið endanlegan dóm fyrir mjög alvarlegt afbrot og er af þeim sökum hættulegur samfélaginu.“
Ákvæðið virðist hins vegar gilda um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd, en ekki að vernd sé felld úr gildi. Óvíst og ólíklegt er hvort hægt að túlka ákvæðið á þann hátt að það heimili að vernd sé felld úr gildi.
Stefnt er að lagabreytingum í haust sem munu gera kleift að fella úr gildi alþjóðlega vernd hjá fólki sem gerist brotlegt við lög. Guðrún Hafsteindóttir dómsmálaráðherra svaraði fyrirspurn DV um þetta með eftirfarandi hætti:
„Ég hef sagt að ég muni leggja fram breytingar við útlendingalögin í haust, þar sem ég mun m.a. leggja til að einstaklingur sem er með dvalarleyfi hér á landi og gerist sekur um alvarlegan glæp missi heimild sína til dvalar.“
Þess má geta að héraðssaksóknari hefur krafist 6-8 ára fangelsisdóms yfir Kourani. Sem fyrr segir verður dómur kveðinn upp 15. júlí.