Kjörstöðum í þingkosningunum í Bretlandi hefur verið lokað og BBC hefur birt útgönguspá um skiptingu þingsæta og eins við var búist, miðað við skoðanakannanir, stefnir allt í stórsigur Verkamannaflokksins og að hann hljóti ríflegan meirihluta þingsæta en 326 sæti þarf til að ná meirihluta.
Samkvæmt útgönguspánni fær Verkamannaflokkurinn 410 þingsæti en Íhaldsflokkurinn kemur næstur með 131. Í síðustu kosningum árið 2019 fékk fyrrnefndi flokkurinn 202 þingsæti en sá síðarnefndi 365.
Frjálslyndir Demókratar bæta einnig miklu við sig en þeir fá samkvæmt spánni 61 sæti en fengu 11 síðast.
Því næst kemur hægri-popúlista flokkur Nigel Farage, Umbót, sem spáð er 13 sætum, eilítið meira en honum var spáð í könnunum.
Skoski þjóðarflokkurinn má samkvæmt útgönguspánni þola talsvert tap en hann fær 10 þingsæti nú en fékk 48 síðast.
Það blasir við að Verkamannaflokkurinn muni vinna stærsta sigur í sögu sinni hvað varðar fjölda þingsæta miðað við næsta flokk fyrir neðan en sá stærsti til þessa var 1997 þegar flokkurinn fékk 418 þingsæti en næstur kom Íhaldsflokkurinn með 165.
Valdatíð Íhaldsflokksins er því lokið að sinni að minnsta kosti og Verkamannaflokkurinn, sem hefur verið í stjórnarandstöðu síðan 2010, tekur við völdum.
Talningu atkvæða lýkur í fyrramálið en yfirleitt hefur ekki munað miklu á útgönguspá BBC og lokaniðurstöðum kosninganna. Í kjölfarið mun Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins væntanlega halda á fund Karls konungs og taka við embætti forsætisráðherra.