fbpx
Föstudagur 24.janúar 2025
Fréttir

Íslensk kona og fjórir erlendir karlmenn ákærð í stóru fíkniefnamáli – Yngsti sakborningurinn aðeins 16 ára

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 2. júlí 2024 12:30

Frá Selhellu 9 í Hafnarfirði, þar sem fíkniefnin fundust og var skipt út fyrir gerviefni. Mynd: Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslensk kona á fertugsaldri og fjórir erlendir karlmenn eru ákærð í stóru fíkniefnamáli sem þingfest verður við Héraðsdóm Reykjaness á morgun. Meðal ákærðra eru tveir erlendir bræður í Breiðholtinu, sá yngri verður 17 ára í október en sá eldri er 19 ára.

Málið varðar innflutning á rétt tæplega tveimur kílóum af kókaíni. Voru fíkniefnin falin í tveimur pakkningum inni í tölvuturni sem pakkað var í pappakassa ásamt tölvuskjá, en sendingin kom hingað til lands með hraðsendingafyrirtækinu FedEx frá Bandaríkjunum. Var sendingin stíluð á nafn og heimilisfang aðila sem nýtur nafnleyndar í ákæru málsins.

Fíkniefnin fundust fimmtudaginn 20. júlí við eftirlit tollvarða í aðstöðu tollgæslunnar í vöruhúsi Icetransport að Selhellu 9 í Hafnarfirði og lagði lögreglan hald á fíkniefnin sama dag, rannsakaði þau og skipti þeim út fyrir gerviefni sem komið var fyrir inni í tölvuturninum, ásamt hlustunarbúnaði og kom pakkanum fyrir á starfsstöð Fedex
að Selhellu 9 í Hafnarfirði til afhendingar.

Leynifundir í Mjódd

Brotið var framið um mitt síðasta sumar. Höfuðpaurinn í málinu er á þrítugsaldri. Kom hann að skipulagningu innflutningsins og var í samskiptum við óþekkta aðila í gegnum samskiptaforritið Telegram. Hann leiðbeindi hinum sakborningunum varðandi það að sækja og afhenda pakkann. Konan fékk m.a. það hlutverk, gegn peningagreiðslu, að ráða mann til að sækja pakkann á bíl í afgreiðslu FedEx við Selhellu. Fólkið hittist nokkrum sinnum í Mjódd til að skiptast á upplýsingum og peningum, en þar afhenti höfuðpaurinn einum sakborningi peninga til að leysa út pakkann í Selhellu í Hafnarfirði. Fólkið hittist síðan aftur í Mjódd þar sem pakkinn skipti um hendur, en þar handtók lögregla sakborningana, fyrir utan einn sem var handekinn á Klambratúni.

Einn er ákærður fyrir að hafa geymt fíkniefni fyrir höfuðpaurinn í bíl sínum og höfuðpaurinn sjálfur er ákærður fyrir vörslu fíkniefna á heimili sínu.

Höfuðpaurinn í málinu er ákærður fyrir stórfellt fíkniefnasmygl en hitt fólkið er ákært fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnabrots. Sem fyrr segir er þingfesting í málinu á morgun og má því búast við að réttarhöldin verði í haust.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt