Þrír hundar í Laugarneshverfi eru taldir hafa drepið heimiliskött á fimmtudag. Hundarnir hafa valdið talsverðum usla í hverfinu en um jólin 2021 fjallaði DV um að hundarnir, sem þá voru tveir, drápu tvo ketti með skömmu millibili. Annan köttinn tættu þeir í sig á Þorláksmessu sem vakti mikinn óhug í hverfinu. Helga Björg Heiðdal, eigandi kattarins segir ótækt að yfirvöld bregðist ekki við og fjarlægi hundana frá eigendum sínum en MAST hafi ítrekað fengið ábendingar um ástandið.
Í samtali við DV segir Helga Björg að kötturinn hennar hafi farið út seinnipart fimmtudags en ekki skilað sér heim. Það væri mjög óvenjulegt enda fari kötturinn iðulega út í stuttan tíma í einu. Hún hafi þá auglýst eftir honum á hverfisíðunni á Facebook.
„Nokkrum mínútum seinna hringir í mig kona sem segir mér að hún hafi verið úti að labba með hundinn sinn á Laugarnesvegi á fimmtudagskvöldinu og séð þrjá lausa veiðihunda og einn þeirra með dauðan kött í kjaftinum og að hún sé nokkuð viss um að þetta hafi verið kötturinn minn,“ segir Helga Björg.
Íbúar sem áttu leið hjá hafi reynt að stöðva fæla hundana í burtu frá hræinu en einhverjum ekki staðið á sama því hundarnir voru í miklum ham. Hringt var á lögreglu sem mætti loks á svæðið, fjarlægði köttinn og sagðist ætla að hafa upp á eigandanum. Ekki hafði lögreglan enn hringt í eigandann sem hafði þá sjálf samband og var þá beðin um að koma upp að stöð.
„Þar hafði ég uppi á kettinum í ruslatunnu í portinu hjá Lögreglustöðinni í Reykjavík með aðstoð lögregluþjóns,“ segir Helga Björg.
Eðli málsins samkvæmt var það afar þungbært en þegar heim var komið ákvað Helga Björgað lýsa eftir fleiri vitnum að atvikinu á samfélagsmiðlum.
„Þá fer ég að fá skilaboð, símtöl og viðbrögð frá alls konar fólki, og þá kemur í ljós að þessir hundar búa í hverfinu og hafa ollið miklu usla, áður drepið kött, elt börn, ráðist á aðra hunda og eigendur þeirra. Einnig hafði fólk séð eigendur lemja þá og þeir stokkið yfir girðingu heima hjá sér og því áður verið lausir,“ segir Helga Björg og segir ljóst að þetta ástand sé ekki ásættanlegt og aðgerða sé þörf.
Segir hún að að ætlunin hafi verið að kryfja köttinn til þess að komast að dánarorsök. Lögreglan hafi bent á að sá möguleiki erfyrir hendi að keyrt hafi verið á köttinn áður og hann hafi þegar verðið dauður þegar hundarnir náðu honum. Eftir samtal við dýralækni var hins vegar ljóst að of seint var að kryfja köttinn. Helga Björg er þó á því að kenningin sé langsótt, ekki síst í ljósi þess að hundarnir hafa áður drepið tvo ketti.
„Ég skil svosem ekki hverjar líkurnar eru á því að keyrt er á köttinn minn neðar í götunni og að stuttu seinna séu þrír lausir hundar sem sleppa og ná honum?,“ segir Helga Björg. Hún bendir á að fólk sem var á staðnum, og tók meðal annars meðfylgjandi mynd, heldur því fram að hundarnir hafi drepið köttinn hennar.
„Ég talaði við konu í síma, dóttir hennar hafði orðið vitni og sagt að þessir hundar voru í einhvers konar veiðiham, þeir hlupu svo hratt að kettinum að hún sagði það bara getur ekki verið að kötturinn hafi verið dauður áður. En í raun er það kannski orðið að ákveðnu aukaatriði í þessu máli eftir allt sem þessir hundar hafa gert öðrum. Nú veit ég ekki hvar þessir hundar eru niðurkomnir, hvort þeir hafi verið fjarlægðir eða eru ennþá í höndum eigenda sinna. Það sem er ljótast í þessu máli er hversu miklum usla og viðbjóði þessir hundar eru búnir að valda og það er ekkert búið að gera áður,“ segir Helga Björg.
Hún segist vita til þess að eigandi hundanna hafi verið áminntur frá MAST en spyr hversu margar slíkar áminningar séu gefnar þar til að gripið sé til aðgerða.
„Það er rosalega sárt að aðrir þurfi að gjalda fyrir það að fólk vanræki hundana sína. Það er ekki hægt að áfellast þessi aumingja dýr þar sem hegðun þeirra er einungis afleiðing vanrækslu eigenda sinna. Fólk í hverfinu er orðið hrætt um börnin sín, svona vanræksla á ekki að fá að viðgangast. Hvað þurfa þessir hundar að gera meira til þess að eitthvað verði gert?“ segir Helga Björg og hvetur fólk sem þekkir til málsins að senda inn ábendingar til MAST.