Þetta segir Friðrik R. Jónsson, frumkvöðull og íbúi í miðborg Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið í dag um fyrirhugaða útvíkkun á gjaldsvæðum bílastæða.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að gjaldskylda á bílastæðum verði tekin upp við fleiri götur í borginni en þar er einkum um að ræða götur á svæðinu við Háskóla Íslands og við Hallgrímskirkju.
Friðrik segir við Morgunblaðið að hann sé sáttur við þá stefnu borgarinnar að fækka bílum í miðborginni en nú sé samt nóg komið.
„Ég er þannig séð sáttur við andbílastefnu borgarinnar. Mér finnst borgin flottari og betri vegna þess. En, og þetta er stórt en, mér finnst þeir núna bara vera að ganga alltof hart að saklausum íbúum í úthverfunum. Þótt þessi svæði séu ekki formlega úthverfi, þá eru þau það samt,“ segir hann.
Friðrik segist reikna með að íbúum á þeim svæðum fá fá aukna gjaldskyldu hljóti að finnast þetta íþyngjandi.
„Ég vonast til þess að þeir snarminnki tímann sem þarf að borga í stöðumælana. Og alls ekki gjaldskylda um helgar, fólk er að kíkja í heimsóknir til ættingja eða vina sem búa þar. Af hverju er verið að setja fólk í þessa stöðu? Mér finnst það bara fáránlegt.“
Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.