Svona er að búa við sífelldar rafmagnstruflanir og þær hafa þau áhrif á farsímakerfið að það hrynur á endanum.
Þetta er staða sem milljónir Úkraínubúa búa við alla daga, líka þeir sem búa í friðsömustu hlutum landsins.
Þetta er staða sem gæti komið upp í Vestur-Evrópu að sögn Oleksandr Khartjenko, úkraínsks sérfræðings í orkumálum. Hann segir að ef Rússar vilji, þá geti þeir gert raforkukerfin í Evrópu óvirk á einu síðdegi.
Í samtali við Jótlandspóstinn sagði hann að hann þurfi þrjá dróna og svolítið af sprengiefni til að gera 70% af raforkukerfunum í Evrópu óvirk. Það muni síðan taka nokkrar vikur að koma þeim í lag á nýjan leik. Hann sagði að ef hann geti eyðilegt stóran hluta af vesturevrópska raforkukerfinu, þá geti Rússar líka gert það og það sé eitthvað sem þeir hafi áhuga á að gera.
Hann hefur fylgst með stöðu raforkumála í Úkraínu í 20 ár og er forstjóri Energy Industry Research Center sem sinnir rannsóknum og ráðgjöf fyrir úkraínsku ríkisstjórnina varðandi orkumál.
Hann segir að öryggismálin tengd vesturevrópska raforkukerfinu séu mjög léleg. Víða séu öryggisverðir ekki með vopn og geti ekkert aðhafst ef dróni kemur fljúgandi hlaðinn sprengiefni.
„Enginn getur séð fyrir hvað Rússar gera næst. Þeir geta tekið upp á hverju sem er. Þú sérð hversu margir njósnarar eru afhjúpaðir. Þeir eru með diplómata sem geta flutt hvað sem er á milli landa án þess að vera stoppaðir. Þar á meðal sprengiefni,“ sagði hann.