Mynd af skemmdri Ferrari-bifreið á Íslandi hefur farið sem eldur í sinu um netheima og ekki að ástæðulausu. Á myndinni má sjá fokdýra bifreiðina töluvert skemmda að framan, að sögn eftir að henni var ekið á kind. Ekki er vitað um afdrif skepnunnar.
Samkvæmt upplýsingum DV eru nokkrir meðlimir í breskum Ferrari-bílaklúbbi staddir hér á landi og hefur ferð þeirra vakið töluverða athygli, enda ekki á hverjum degi sem Ferrari-bílar sjást á Íslandi, hvað þá nokkrir saman. Hafa íslenskir bílaunnendur tekið glæsikerrunum fagnandi og fylgst vel með för þeirra um landið.
Eftir því sem DV kemst næst var hópurinn staddur á Austurlandi í gær þar sem fyrrgreint óhapp varð. Bifreiðin sem sést á myndinni er Ferrari F40 en aðeins voru um 1.300 slíkir bílar framleiddir á árunum 1987 til 1992. Þessir bílar eru ekki beint ódýrir og kosta að lágmarki um 200 milljónir króna.
Heimildir DV herma að hópurinn hafi lent í nokkrum ógöngum hér á landi eftir að hafa byrjað ferð sína í Reykjavík.
Heimildarmaður DV segir að hópurinn hafi til dæmis tekið ranga beygju og ekið yfir Öxi á leið sinni austur á firði í stað þess að halda sig á hringvegum. Um er að ræða fjallveg, sem sagður er vera með þeim hættulegri á landinu, og eflaust ekki ákjósanlegur fyrir rándýra og hraðskreiða bíla sem liggja lágt.