„Ég er nokkuð ung ennþá og ég vona að ég geti haldið áfram að láta gott af mér leiða. Ég er glöð með að hafa notað rödd mína og breytt úreltum væntingum fólks um hvað kvenkyns maki þjóðhöfðingja eigi að gera og segja. Það er klisja að segja það, en ég er orðin bjartsýnni. Af því ég fékk einstök forréttindi til að ferðast um heiminn og einnig um Ísland, kynnast fólki af öllum stéttum og sjá svo marga ólíka einstaklinga gera svo margt fyrir samfélagið okkar. Það fær mig til að trúa á mannkynið og ég held að í dag þurfum við á slíku að halda í miklum mæli. Ég er spennt fyrir framtíðinni,“
segir Eliza Reid forsetafrú Íslands aðspurð um hvað hún sé ánægðust litið til baka yfir síðustu ár. Eliza er stödd í Toronto og var í viðtali í þættinum Your Morning á sjónvarpsstöðinni CTV.
Í upphafi er hún spurð um brjóstagjöf Höllu Tómasdóttur nýkjörins forseta Íslands á fundi fyrir meira en 20 árum.
„Í fyrsta lagi segir þér þetta að Ísland er lítið land, við erum ekki það mörg og rekumst oft á kunningja okkar. Í öðru lagi þá sat þetta í huga mér, af því að á þessum tíma fyrir meira en 20 árum þá var ég nýflutt til Íslands, ung kona á þrítugsaldri og þá var ég ekkert byrjuð að spá í barneignir. Að sjá konu í tæknibransanum með barn á brjósti og enginn að spá í það,“
Sjá einnig: Eliza rifjar upp fyrstu kynni þeirra Höllu – Stjórnarformaður með barn á brjósti
Ljóst er að brjóstagjöf Höllu eins eðlileg og náttúrleg og slík athöfn er vekur athygli erlendra miðla.
Þær Eliza og Mediwake ræða þó fleira í viðtalinu. Mediwake spyr hvað aðrar þjóðir megi læra af Íslandi og svarar Eliza því til að aukið kynjajafnrétti skili ávinningi fyrir alla, staðreyndir og tölur styðji þau orð hennar.
Mediwake spyr hvort Eliza hafi íhugað að bjóða sig fram sem stjórnmálamaður í Kanada, Elisa segist þurfa að hugsa um það.
„Eliza hefur nýtt stöðu sína sem forsetafrú til að leggja áherslu á jafnrétti kynjanna og stöðu kvenna á alþjóðasviðinu. Hún er einnig mikill aðdáandi bókmennta, hefur skrifað eina og önnur er á leiðinni,“ segir þáttastjórnandinn Anne-Marie Mediwake þegar hún kynnir Elizu inn.
Bókin er væntanlega á næsta ári og segir Eliza um bókina: „Þetta er glæpasaga, sem heitir Death of a diplomat (Dauði diplómats) og er svona blanda af stíl Agöthu Christie en gerist á Íslandi og er í því hefðbundnum Nordic Noir stíl. Með stjórnmálaívafi, það eru Kanadamenn í bókinni og Íslendingar og það hefur verið mjög gaman að skrifa hana.“
„Láttu mig vita þegar þú býður þig fram í Kanada,“ segir Mediwake áður en hún þakkar Elizu fyrir spjallið.