fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Ástin dó í Bandaríkjunum – Fyrrverandi eiginkona Gísla Hjálmtýssonar krefur hann um hundruð milljóna

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 20. júní 2024 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á föstudag verður aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í sérstæðu einkamáli. Fyrrverandi eiginkona Gísla Hjálmtýssonar, þekkts fjárfestis og prófessors í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, stefnir honum þar til greiðslu hárra fjárhæða, hún krefst þess að staðfest verði ógildi kaupmála sem þau gerðu á milli sín fyrir 19 árum og hún krefst þess að kyrrsetning  sýslumanns á fasteignum Gísla í Reykjavík og hlutum hans í þremur fyrirtækjum verði staðfest.

Fjárhagslegur ágreiningur hjónanna var í fréttum síðastliðið sumar en þá kærði eiginkonan, Sigrún Ísabella Jónsdóttir, Gísla til embættis héraðssaksóknara fyrir meint umboðssvik og/eða meintan fjárdrátt. Einnig fékk hún sýslumann til að kyrrsetja með úrskurði eignir Gísla fyrir um 233 milljónir króna. Heimildin greindi frá málinu í byrjun júní 2023. Kæran byggði á því að Gísli hefði selt einbýlishús í Reykjavík árið 2016 sem þau hjónin áttu saman án þess að Sigrún fengi sinn hluta kaupverðsins greiddan.

Giftust og fluttu til Bandaríkjanna

Þau Gísli og Sigrún eru bæði rétt um sextugt. Þau giftust árið 1990 og fluttust þá um haustið til Bandaríkjanna. Þau bjuggu þar á ýmsum stöðum en settust að í Audubon í Pennsylvaníu árið 2000. Árið 2005 útbjó Gísli kaupmála sem hann fékk Sigrúnu til að undirrita. Í stefnu lögmanns Sigrúnar, Sveins Andra Sveinssonar, segir að Gísli hafi beitt Sigrúnu miklum þrýstingi til að undirrita kaupmálann og einnig er véfengt að undirritanir votta undir skjalið hafi verið gildar, þar sem vottarnir og Gísli hafi ekki verið stödd í sama landi daginn sem skjalið var vottað.

Í kaupmálanum segir að hann falli úr gildi 7. júlí árið 2020 nema hjónabandinu hafi þá lokið með fráfalli annars hjóna eða skilnaði. Hið sama gildi ef Gísli sæki um skilnað fyrir 7. júlí 2008.

Sigrún sótti um skilnað frá Gísla árið 2015. Var skilnaðarmálið rekið fyrir fjölskyldudómi í Montgomery-sýslu í Pennsylvaníu. Dómurinn úrskurðaði Sigrúnu nokkuð háan mánaðarlegan framfærslueyri frá Gísla.

Í ágústmánuði árið 2020 lagði Sigrún fram kröfu fyrir fjölskyldurétti í Motnomgery um að kaupmáli hjónanna frá 2005 yrði lýstur ógildur. Forsendurnar voru meðal annars þær að hún hefði ekki haft nokkra aðkomu að gerð kaupmálans heldur hefði Gísli útbúið hann, hún hafi ekki notið ráðgjafar lögmanns við gerð eða undirritun kaupmálans, séreignir Gísla væru tilgreindar með ófullnægjandi hætti i kaupmálanum, Sigrún hafi ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um eignir hans og hann hefði verið að nafnbreyta eignum síðan árið 2005. Tilgangur Gísla með kaupmálanum hefði verið að koma eignum undan félagsbúinu (þ.e. búi hjónanna) og í kaupmálanum væri ekki að finna afsal stefnanda á rétti til að fá fullar upplýsingar um eignir og réttindi. Var talið í kröfugerðinni að kaupmálinn væri í andstöðu við lög ríkisins og bæri dómnum að virða hann að vettugi við meðferð skilnaðarmálsins.

Dómurinn í Montgomery féllst á kröfu Sigrúnar og kvað upp úrskurð haustið 2020 þar sem kaupmálinn var felldur úr gildi. Ennfremur skipti dómurinn eignum hjónanna að miklu leyti til helminga en ánafnaði Gísla þó töluverðum séreignum.

Hafa erlendir úrskurðir vægi hér á landi?

Kjarni lagaágreiningsins núna snýst um lagaskilarétt, þ.e. gildi niðurstaðna dómstóla á milli landa. Hjónin fyrrverandi voru um tíma búsett í Bandaríkjunum og eiginkonan sótti um skilnað þar. Gísli tók framan af þátt í þeim réttarhöldum en fór síðan úr landi og hætti að skipta sér af þinghaldinu. Tekist verður á um í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn hvort niðurstaða bandaríska dómsins um skiptingu búsins hafi áhrif eða sönnunargildi fyrir dómi hér á landi.

Í greinargerð sinni hafnar Gísli því með öllu að niðurstaða bandarísks dómstóls í málinu hafi áhrif fyrir dómi hér á landi. Kemur þar fram að hann flutti til Íslands nokkuð löngu fyrir skilnaðinn, Sigrún flutti líka hingað heim en flutti síðan aftur til Pennsylvaniu. Gísli kveðst ávallt hafa hafnað lögsögu bandarískra dómstóla yfir málinu enda sé skýrt að kaupmálinn hafi miðast við íslensk lög en ekki bandarísk.

Gísli tiltekur ýmis rök gegn því að bandaríski dómurinn ætti að hafa réttaráhrif hér á landi. Ber þar að nefna að Gísli segir að sér hafi ekki verið birt stefna í málinu og hafi gengið útivistardómur. Hafi hann þó haft margvíslegt sér til varnar í málinu.

Einnig bendir Gísli á að kaupmáli hjónanna fyrrverandi sé augljóslega í gildi þar sem Sigrún hafi sótt um skilnað árið 2015 og höfðað skilnaðarmál á hendur honum árið 2017. Hjónin hafi þó ekki átt sameiginlegt lögheimili síðan árið 2012. Ákvæði kaupmálans um að hann falli úr gildi árið 2020 nema að til skilnaðar komi áður sé því augljóslega í gildi. Til skilnaðar hafi komið og kaupmálinn því í gildi.

Gísli og Sigrún eru síðan mjög ósammála um réttmæta skiptingu eigna búsins og hvað ætti að teljast til séreignar Gísla. Er það allt saman rakið ítarlega í málsgögnum og er það flókin umfjöllun því eignir eru margbreytilegar og verulegar.

Kröfur vel á þriðja hundrað milljóna

Fjárkröfur Sigrúnar á hendur Gísla eru langt yfir 200 milljónir króna. Hún krefst þess að hann greiði sér 1.546.153 dali sem er andvirði um 214 milljóna íslenskra króna. Auk þess gerir hún kröfu um framfærslulífeyri frá honum upp á 8.000 dali mánaðarlega sem er rúmlega 1,1 milljón króna.

Gísli hafnar öllum kröfum hennar með ítarlegum rökstuðningi. Sem fyrr segir verður aðalmeðferð í málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Boða leiðindaveður yfir jólahátíðina – Gul jól í ár

Boða leiðindaveður yfir jólahátíðina – Gul jól í ár
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálaðist hjá dularfullri rússneskri útvarpsstöð

Allt brjálaðist hjá dularfullri rússneskri útvarpsstöð
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Sakamál ársins I: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug

Sakamál ársins I: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands