„Þetta eru ófullnægjandi svör,“ segir Tómas Ingvason, faðir Ingva Hrafns sem svipti sig lífi á Litla-Hrauni þann 5. maí síðastliðinn, í samtali við DV í gær.
Tómas hefur kallað eftir því að fá aðgang að sjálfsvígsbréfi sem sonur hans skildi eftir sig, en um var að ræða handskrifað bréf sem Tómas virðist hafa fengið ritskoðaða og vélritaða útgáfu af.
Sjá einnig: Faðir Ingva Hrafns: „Það er einhver skítur þarna í gangi, ég bara finn það á mér“
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, segir fleiri alvarleg atvik hafa komið upp á Litla-Hrauni síðan Ingvi Hrafn svipti sig lífi.
„Eftir umræddan atburð hafa fleiri alvarlegir atburðir gerst en þar náðist að grípa inn í,“ segir Guðmundur Ingi við Nútímann. Miðillinn segist hafa heimildir fyrir því að tveir fangar hafi reynt að taka eigið líf frá því í byrjun maí.
Guðmundur Ingi segir það jákvætt að umræðan um geðheilbrigðismál fanga sé að koma í umræðuna. Vonar hann að stjórnvöld geri meira framvegis og segir Afstöðu hafa eflt sína starfsemi þegar kemur að geðheilbrigði fanga. Segist hann hrósa Wilum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra fyrir að hafa skipað nokkra vinnuhópa í málaflokknum.
Guðmundur Ingi vill að eftirlitsnefndin sem fylgjast á með störfum lögreglu svari því hvort vinnubrögð embættisins hafi verið samkvæmt reglum þegar Ingvi Hrafn var sóttur með offorsi á Vernd, þaðan sem hann var fluttur á Hólmsheiði og síðar á Litla Hraun.
„Að mínu mati var ekkert faglegt við þessa handtöku og ekkert tillit tekið til neins, hvorki þess handtekna eða annarra íbúa og hvað þá brotaþola eða samfélagsins. Við höfum viljað sjá meiri fagmennsku hjá lögreglunni undanfarið en það má alveg taka undir að það hefur vantar töluvert upp á fagmennsku í mjög mörgum málum að undanförnu,“ segir Guðmundur Ingi.
Nánar má lesa um málið
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.