Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, furðar sig á fjölda barna á biðlista eftir leikskólaplássi. Ljóst sé að staðan hafi ekkert batnað árum saman og það þrátt fyrir að börnum á leikskólaaldri hafi fækkað um 10 prósent í borginni síðustu 10 árin. Kannski sé það skiljanlegra ef horft er á að á sama tímabili hafi leikskólaplássum ekkert fjölgað heldur þvert á móti fækkað um 940. Hildur vekur athygli á þessu í grein á Vísi.
Hildur vísar til færslu Sylvíu Briem Friðjónsdóttur sem vakti athygli á stöðu foreldra barna á leikskólaaldri. Þar sem barn hennar fær ekki leikskólapláss við 12 mánaða aldur og þar sem dagforeldrar taki aðeins börn inn að hausti sér Sylvía fram á að þurfa að greiða af plássi sem hún þarf ekki í fjóra mánuði bara til að tryggja syni sínum pláss þegar fæðingarorlofi hennar líkur. Það mun kosta hana rúmlega 400 þúsund krónur. Sylvía veit um dæmi þess að foreldrar hafi hreinlega þurft að fara í gjaldþrot út af fæðingarorlofi.
Hildur segir að þessi vandi sé ekkert nýtt fyrir íbúa Reykjavíkur. Þvert á móti hafi staðan verið óbreytt árum saman.
„Nú þegar fyrstu úthlutun leikskólaplássa er lokið í Reykjavík er útlit fyrir að um 800 börn, 12 mánaða og eldri, verði enn á biðlista þann 1. september nk. Staðan hefur versnað frá síðasta ári og engar áþreifanlegar lausnir í sjónmáli.
Versnandi staða er sérkennileg þegar tölfræðin er skoðuð, því ekki hefur leikskólabörnum fjölgað í Reykjavík, heldur þvert á móti! Frá árinu 2014 hefur börnum á leikskólaaldri fækkað um 10% í Reykjavík. Yfir sama tímabil hefur leikskólaplássum jafnframt fækkað um 940. Borgaryfirvöld geta því ekki kennt vaxandi barnafjölda um vaxandi leikskólavanda – þau geta einungis sjálfum sér um kennt.
Samhliða fjölgar börnum á leikskólaaldri í nágrannasveitarfélögum – fólk flytur þangað sem þjónusta er betri og lífsgæði mælast meiri – borgarbúar kjósa með fótunum.“
Þessi staða sé ekkert grín fyrir fjölskyldur í Reykjavík sem verði fyrir gífurlegu tekjutapi. Viðskiptaráð hafi árið 2022 birt útreikninga sem sýna tekjutap fjölskyldna á meðallaunum vegna biðlistavanda leikskóla. Þar er gengið út frá því að annað foreldri þurfi að vera frá vinnu á meðan beðið er eftir leikskólaplássi.
„Fyrir 10 mánaða bið eftir leikskólavist, sem er meðal biðtími í Reykjavík að loknu fæðingarorlofi, verður fjölskylda á meðallaunum fyrir tekjutapi sem nemur ríflega 6,5 milljónum króna. Það þarf vart að tíunda hve gríðarlegt tekjutap það er fyrir ungt fjölskyldufólk. “
Á seinasta kjörtímabili hafi borgin ráðist í styttingu leikskóladagsins, nokkuð sem sætti harðri gagnrýni og varað við að þessi stytting myndi bitna helst á stöðu vinnandi kvenna. Eftir að breytingarnar tóku gildi var framkvæmt jafnréttismat sem sýndi svart á hvítu að styttingin hafði neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna. Mæður væru líklegri en feður til að fara fyrr úr vinnu til að mæta skertum opnunartíma og konur líklegri en karlar til að minnka starfshlutfall til að koma til móts við styttinguna.
Málefni leikskólanna hafi verið hitamál í borgarstjórn fyrir síðustu tvær kosningar og flokkarnir í meirihluta lofað öllu fögru. Samt hafi ekkert breyst til batnaðar.
Í meirihlutasáttmála núverandi meirihluta Framsóknar, Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata frá árinu 2022 er því lofað að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskóla með „fjölbreyttum aðferðum“. Eins stæði til að bæta starfsumhverfi í leikskólum og vinna gegn manneklu. Þetta var kunnuglegt stef fyrir borgarbúa en fyrri meirihluti Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri Grænna, sagði í meirihlutasáttmála sínum 2018 að til stæði að bæta starfsumhverfi í leikskólum og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með „fjölgun ungbarnadeilda og byggingu nýrra leikskóla, auk þess að skoða aðgerðir til að fjölga dagforeldrum“.